Saga - 2020, Blaðsíða 131
ara, þar sem finna má sögulegt efni sem byggir á margvíslegum
sjónarhornum, tilbúin verkefni fyrir nemendur, safn frumheimilda,
verkfæri sem gera kennurum kleift að búa til sín eigin stafrænu
verkefni og fleira.13 Þetta er mögulegt vegna ríkulegra gagnasafna
á borð við Stockholmskällan þar sem yfir 30.000 myndir, kort og skjöl
af öllu mögulegu tagi eru borin á borð í boði Stokkhólmsborgar,
bæði fyrir almenna notendur og skólafólk, auk leiðbeininga um
hvernig hægt sé að nota efnið og hvað beri að varast.14 Fjölbreytnin
spannar allt frá Solbergafjársjóðnum frá sextándu öld sem fannst
árið 1955 til Stokkhólmssöngva Moniku Zetterlund. Meðal þeirra
listasafna sem bjóða aðgang má nefna Ríkislistasafnið í Amsterdam
þar sem hátt í 700.000 listaverkum er stillt upp til niðurhals og
frjálsra afnota.15 Bæði það og Stockholmskällan eru meðal þúsunda
(já, þúsunda!) skjalasafna, listasafna og bókasafna sem auðvelt er að
nálgast í gegnum stafrænu menningarstofnunina Europeana sem
meðal annars hefur þróað margvíslegt námsefni á þeim grunni.16
Við sem teljum mikilvægt að nemendum íslenskra framhaldsskóla
standi efni á íslensku til boða getum leitað í fjársjóðskistur eins og
tímarit.is þar sem tugþúsundir greina úr 1.348 blöðum og tímaritum
eru aðgengilegar, Ísmús, músík- og menningarvefinn sem Tónlistar -
safn Íslands og Stofnun Árna Magnússonar sjá um, Vesturfaraskrár,
jarðabækur, dómabækur, manntöl og fleira efni frá skjalasöfnum um
land allt.
Er nema von að því fylgi vonbrigði að smella á myndir og texta
í glænýrri rafbók og vera einkum boðið að strika yfir eða skrásetja
eigin athugasemd? Metnaðarleysið er hrópandi. Vissulega er margt
efni höfundarvarið og hefur það til dæmis orðið til þess að erfiðara
hefur reynst að nota sumt íslenskt efni sem verður frekar útundan
fyrir vikið. Sem betur fer átta sífellt fleiri sig á mikilvægi þess að
leyfa að minnsta kosti skólaaðgang eða nota svokölluð Creative
Commons afnotaleyfi.17 Úrvalið vex því jafnt og þétt og námsefnis-
höfundum og –útgefendum er í lófa lagið að þjóna markmiðum
vandaðrar sögukennslu með því að nýta það. Ekki er nauðsynlegt
að fara alla leið í tæknitöfrum til að útkoman verði spennandi.
sögukennslan sett í skammarkrókinn 129
13 Vef. historiana.eu. Historiana, sótt 25. ágúst 2020.
14 Vef. stockholmskallan.stockholm.se. Stockholmskällan, sótt 25. ágúst 2020.
15 Vef. rijksmuseum.nl. Rijksmuseum, sótt 25. ágúst 2020.
16 Vef. europeana.eu. Europeana, sótt 25. ágúst 2020.
17 Vef. creativecommons.org. Creative Commons, sótt 25. ágúst 2020.