Saga - 2020, Page 132
Lesendur Sögu geta til dæmis skoðað með eigin augum kennslubók-
ina 1918: Ég var þar sem Finnar gáfu út í tilefni sjálfstæðisafmælis
síns.18 Bókin, sem er á blöndu af finnsku og sænsku, er ókeypis á
netinu en var einnig færð öllum grunn- og framhaldsskólum lands-
ins að gjöf. Þar eru meðal annars persónulegar frumheimildir nýttar
á frábæran hátt til að draga upp mynd af borgarastríðinu en safn
heimilda er einnig að finna á vefsíðu bókarinnar þar sem þær eru
einfaldlega flokkaðar í hversdagslíf á dögum stríðsins, á vígstöðv -
unum, í fangabúðum og eftir stríðið. Í sjálfri kennslubókinni eru fjöl-
breytt verkefni þar sem nemendur eru meðal annars leiddir í gegn-
um þá sögulegu hluttekningu (e. historical empathy) sem persónuleg-
ar heimildir vekja gjarnan svo sem frásögn unglingsins sem heitir
því kunnuglega nafni Tor Wilhelmsson (sjá heimildasafn). Flóknara
þarf það ekki að vera.
Þegar kennari flettir í nýju rafbókinni Íslands- og mannkynssaga 2
sem gerir ekkert af því sem hér er kallað eftir verður ein spurning
verulega áleitin: Réttlætir þessi viðbót við gömlu prentútgáfuna það
að skipta henni út fyrir nýju rafbókina með auknum kostnaði fyrir
nemendur? Prentaða bókin kostar um það bil 3.000 kr. á skiptibóka-
mörkuðum en ódýrasti aðgangur að rafbókinni, sex mánuðir, um
4.500 kr. Skiptibókamarkaðir hafa lengi verið bókaútgefendum
þyrnir í augum, þrátt fyrir að námsbókaútgáfa njóti styrkja úr
Þróunarsjóði námsgagna: „Skiptibókamarkaðir hafa tekið til sín æ
stærri hluta af tekjum bókaútgefenda og þar með eyðilagt hvata til
að framleiða nýtt námsefni … Hvorki ríki né sveitarfélög kaupa
námsgögn fyrir nemendur á framhaldsskólastigi og búa þannig til
markað sem hvetur til nýsköpunar og nýútgáfu námsgagna.“19 Svo
segir í sex ára gamalli skýrslu samráðsnefndar um framtíð íslenskrar
bókaútgáfu þar sem því er velt upp hvort rafbókavæðing sé hugs-
anlega svarið — en metnaðarleysið birtist í eftirfarandi varnagla:
Rétt er þó að leggja áherslu á að nefndin gerir hér greinarmun á ein-
földum textabókum með myndskreytingum sem gefnar eru út á staf-
rænu formi og efni sem krefst flókinnar tæknilegrar útfærslu. Þegar um
er að ræða framleiðslu á gagnvirku, stafrænu efni, þar sem möguleikar
tækninnar eru fullnýttir, er ekki um sparnað að ræða því framleiðsla á
slíku efni er kostnaðarsöm.20
súsanna margrét gestsdóttir130
18 Vef. 1918.finlit.fi. 1918. Minä olin siellä, jag var där, sótt 25. ágúst 2020.
19 Skýrsla samráðsnefndar um framtíð íslenskrar bókaútgáfu (janúar 2014), 8.
20 Sama heimild.