Saga - 2020, Page 145
ins. Hann taldi að „ríkjandi samfélagsöfl landsins [hafi verið] and -
snúin öllum meiriháttar breytingum á samfélagsháttunum“ og tek -
ur dæmi af mönnum eins og Ólafi Stefánssyni.15 Íhaldssemina tengir
Gísli öðrum þræði við hagsmuni höfðingja sem óttuðust um að
missa forréttindastöðu sína ef veruleg röskun yrði á jafnvægi milli
landbúnaðar og sjávarútvegs en líka andstöðu við framfarir í skipu-
lagi og hugarfari þessa tíma. Þar urðu honum notadrjúgar kenn -
ingar um áhættufælni sem skýrðu tregðuna við að taka upp nýjung-
ar. Fátækir bændur sem lifðu nálægt hungurmörkum væru tregir til
að reyna eitthvað nýtt sem kynni að stofna lífsbjörg þeirra í voða.
Gísli hélt áfram að sinna verslunarsögu sautjándu og átjándu
aldar, þótt ekki kenndi þar eins margra nýmæla og í Upp er boðið
Ísaland. Kveður mest að rannsókn á verslun með íslensku skreiðina
á erlendum mörkuðum í stuttri bók, Fiskurinn sem munkunum þótti
bestur, og veglegum kafla um einokunarverslunina í Líftaug landsins,
yfirlitsriti um utanlandsverslun Íslands.16
Átök um söguskoðanir
Upp er boðið Ísaland vakti mikið umtal og deilur jafnt hjá fræðimönn-
um sem í fjölmiðlum. Það er því nokkur innistæða fyrir ummælum
Gísla sjálfs um bókina síðar að hún væri „sennilega bæði umdeild-
asta og áhrifaríkasta sagnfræðirit síðustu áratuga“.17 Gísli lét ekki
sitt eftir liggja í þeim skoðanaskiptum sem í hönd fóru enda var
hann málafylgjumaður mikill.
Athyglina sem Upp er boðið Ísaland fékk má einkum þakka því að
sögutúlkun Gísla blandaðist tvenns konar hugmyndaátökum sem
hátt bar á níunda áratugnum. Í fyrsta lagi fléttaðist hún inn í heita
samtímaumræðu um bændastéttina og landbúnaðarpólitíkina þar
sem hörð hríð var gerð að verndarstefnu og óhagkvæmum rekstri í
gísli gunnarsson 143
15 Sama heimild, 263–264. Þó skáru nokkrir valdamenn sig úr og var Skúli Magn -
ús son fremstur í flokki.
16 Gísli Gunnarsson, Fiskurinn sem munkunum þótti bestur. Íslandsskreiðin á fram -
andi slóðum 1600–1800, Ritsafn Sagnfræðistofnunar 38 (Reykjavík: Sagnfræði -
stofnun Háskóla Íslands, 2004); „Undarlegt er Ísland, örvasa og lasið,“ í Líftaug
landsins. Saga íslenskrar utanlandsverslunar 900–2010 1, ritstj. Sumarliði R.
Ísleifsson (Reykjavík: Skrudda, 2017), 207–283.
17 Gísli Gunnarsson. Tölvupóstur á Gammabrekku, póstlista Sagnfræðingafélags
Íslands (gammabrekka@hi.is) 6. apríl 2014.