Saga - 2020, Page 148
Ástríðumaður
Gísli hafði brennandi áhuga á stjórnmálum og félagsmálum og tók
af ástríðu þátt í kappræðum á opinberum vettvangi. Þær spönnuðu
vítt málefnasvið, allt frá dægurflugum stjórnmálanna til sérstakra
áhugamála hans eins og átaka Ísraelsmanna og Palestínumanna,
trúmála, siðræns húmanisma og borgaralegrar fermingar. Á vett vangi
sagnfræðinnar lét Gísli heldur ekki sitt eftir liggja, hann var litríkur
málafylgjumaður í umræðum um fjölbreytilegustu efni. Gísla var
annt um orðspor sitt og lét fá tækifæri ónotuð til að halda uppi ein-
beittri málsvörn fyrir ritverk sín. Gat hann verið hvass við þá sem
ekki voru sama sinnis en hann átti líka til sveigjanleika í skoðunum
og brá stundum fyrir sig glettni og gamanyrðum. Í umræðu á
Gammabrekku, tölvupóstlista Sagnfræðingafélags Íslands, um danska
þjóðernisrómantík fyrir nokkrum árum sagði hann: „Ísland var
gjarnan lofsungið fyrir að hafa varðveitt gamla norræna málið. Þetta
tengdist oft andúð á öllu þýsku, einkum eftir 1848–1864. Þetta var
enn þá til staðar meðal danskra fræðimanna á 8unda áratugnum,
einkum á þriðja glasi.“ 23
Við Gísli áttum allmikið saman að sælda sem kennarar í sagn -
fræði við Háskóla Íslands. Hann var kominn um sextugt þegar ég
varð fastur kennari 1998 og var hann enn í fullu fjöri. Við unnum
saman að ýmsum verkefnum, til dæmis ritstýrði ég bók hans Fiskur -
inn sem munkunum þótti bestur og við áttum í löngu samstarfi með
öðrum um útgáfu rits um sögu utanlandsverslunar, Líftaugar lands-
ins, sem var síðasta umtalsverða sagnfræðiverk hans. Gísli var ekki
alltaf þýður í samskiptum en samvinna okkar var alla jafna góð
enda deildum við svipaðri sögusýn og áttum létt með að tala hrein-
skilnislega um ágreiningsefni þá sjaldan að snurða hljóp á þráðinn.
Í verkum Gísla skín í gegn ástríða fyrir sagnfræðinni, fjölþætt
þekking og góð útsýn til heimssögunnar. Rík samúð með lítilmagn-
anum mótar höfundarverk hans allt en hann var sjálfur af fátæku
alþýðufólki kominn. Stéttakúgun og harkan í mannlegum samskipt-
um á fyrri tímum var Gísla mjög hugstæð án þess þó að hann mór-
alíseraði um hana. Hann lagði sig frekar fram um að skilja kúgun og
harðýðgi út frá hugsunarhætti fátæktarsamfélagsins.
guðmundur jónsson146
23 Gísli Gunnarsson. Tölvupóstur á Gammabrekku, póstlista Sagnfræðingafélags
Íslands (gammabrekka@hi.is) 9. desember 2015.