Saga - 2020, Síða 166
átakatímabil í sögu íslenskrar leiklistar, þá hefst fyrir alvöru undirbúningur
að stofnun og byggingu Þjóðleikhúss. Það þarf engum að koma á óvart að
þróun leiklistar varð á forsendum og hvíldi á herðum örfárra einstaklinga.
Á þessu tímabili var stjórnsýsla landsins einnig í mótun, ekki kom til að
stjórnvöld mótuðu eiginlega stefnu í málefnum leiklistar fremur en annarra
listgreina enda var ekki um að ræða fyrirmyndir hjá yfirvöldum annars
staðar, hvorki í nágrannalöndunum né annars staðar á Vesturlöndum.
Á þessu tímabili eignast Íslendingar sína fyrstu menntuðu leikara. Það
að ungt fólk fór til útlanda — Danmerkur — og sóttist eftir skólun í list leik-
arans stuðlaði að því að kröfur um íslenskt þjóðleikhús urðu háværari, þær
hugmyndir höfðu vaknað þegar á seinni hluta nítjándu aldar með mönnum
eins og Sigurði Guðmundssyni málara. Í félagslegu tilliti gerist þetta í skugga
tveggja ætta: Í annarri er Indriði Waage höfuðpaur, dóttursonur Indriða
Einarssonar leikritaskálds, sem einatt er nefndur faðir Þjóðleik húss ins enda
þrýsti hann öðrum fremur á yfirvöld að láta af því verða að reisa hinni ungu
fullvalda þjóð musteri leiklistar, í hinni var frú Stefanía Guðmundsdóttir
höfuð fjölskyldunnar í listrænu tilliti.
Indriði Einarsson leikritaskáld var faðir systranna Eufemíu, Guðrúnar,
Mörtu og Emilíu sem allar áttu sinn feril á leiksviði. Eufemía giftist Jens B.
Waage sem var ein helsta karlstjarna Leikfélags Reykjavíkur fyrstu tvo ára-
tugi tuttugustu aldarinnar, en Indriði Waage var elsta barn þeirra. Sem sé
býsna virk leikhúsfjölskylda. Frú Stefanía var á sínum tíma stjarna leikhúss-
ins, hún giftist Borgþóri Jósefssyni og meðal barna þeirra var Anna Borg
sem varð ein þekktasta leikkona Danmerkur. Stefanía var um skeið formað -
ur Leikfélags Reykjavíkur og gat í raun látið sig varða verkefnaval og hverjir
fengju bitastæðustu hlutverkin.
Ættarveldin og valdabarátta þeirra urðu bakgrunnur þeirrar þróunar
sem varð í leikhúsinu og sem er viðfangsefni Jóns Viðars. Hann hefur að vísu
fyrirvara á og skrifar aftan á bókarkápu: „Þetta er svolítið óvenjuleg bók.
Hún er blanda af fræðimennsku og sagnaskemmtan, leiklistargagnrýni og
leiklistarsögu, persónulegum endurminningum og hugleiðingum.“ Í formála
hnykkir þó Jón Viðar á fræðilegri nálgun sinni þegar hann segir: „[Bókin] er
auðvitað fræðirit í þeim skilningi að hér er þess freistað að draga upp eins
raunsanna mynd af efninu og höfundi er frekast unnt. Hún er byggð á
margra ára frumrannsóknum sem voru að mestu leyti unnar þau ár sem ég
starfaði sem forstöðumaður Leikminjasafns Íslands, en í starfssamningi mín-
um var heimild til að stunda fræðistörf eftir því sem daglegar annir við
safnið leyfðu.“ Auk þess vísar Jón Viðar í persónuleg kynni sín af nokkrum
af þeim leikurum sem frá er sagt sem og öðrum leikurum sem þekktu þá
leikara og leikkonur sem koma fyrir í bókinni og sem hann tók viðtöl við,
auk yfirlegu hans yfir upptökum úr safni Ríkisútvarpsins á útvarpsleikritum
sem við sögu koma. Þá hefur hann að sjálfsögðu einnig farið yfir samtíma-
heimildir á borð við leikgagnrýni í blöðum, leikskrár og annað efni.
ritdómar164