Saga - 2020, Síða 167
Þessi vinnubrögð eru góð og gild svo langt sem þau ná. En hér er einnig
að finna alvarlegan meinbug á úrvinnslu efnisins. Viðtöl Jóns Viðars við
þann fjölda heimildarmanna sem hann nefnir bæði í formála og víða í meg-
inmáli, og eru flestir látnir, hljóta að teljast frumheimildir og það hefði vissu-
lega verið fengur að hafa skrá um þau viðtöl í bókarlok og yfirlýsingu um
að þau væru varðveitt, til dæmis hjá Leikminjasafni Íslands. Hins vegar tek-
ur Jón Viðar það sérstaklega fram í formála að bókin sé „fyrst og fremst
samin handa hinum almenna lesanda, fróðleiksfúsri alþýðu … Af því leiðir
að ég hef hér sleppt, eins og mér frekast var unnt, því tilvísanakerfi sem
sjálfsagt er að viðhafa í akademískum rannsóknum“.
Þetta er miður því varla hefði það skaðað fróðleiksfúsa alþýðu að hafa
tilvísanir, til dæmis aftanmálsgreinar; þeir lesa sem vilja, aðrir sleppa. Hins
vegar hefði það stóraukið notagildi bókarinnar fyrir leiklistar fræðirann -
sóknir framtíðarinnar á Íslandi ef stuðst hefði verið við akademísk vinnu-
brögð að þessu leyti, svo uppfull sem bókin er af fróðleik. Hér hefur sagna -
maðurinn í frásagnargleði sinni brugðið fæti fyrir fræðimanninn.
Vandamálið sem leiklistarfræðin, og kannski þó einkum leiklistarsagn -
fræðin, glímir við er að um leið og tjaldið fellur í lok leiksýningar er mikilvæg-
asta heimildin um list leikarans, sýningin sjálf, horfin. Jafnvel þótt hún sé leikin
aftur hefur eitthvað glatast. Um leið kemur eitthvað annað til. Leik sýningar
eiga það nefnilega til að taka bragð af áhorfendum eins og allir leikarar þekkja
mætavel og þar með verða til dæmis gagnrýnendur ávallt að hafa ákveðinn
vara á þegar sagt er frá áhrifum sýningar og merkingu einstakra þátta hennar,
það gæti verið breytingum undirorpið. Leikhús sagn fræð ingurinn styðst við
lýsingar samtímamanna, blaðagagnrýni, misjafna að gæðum og skilningi og
jafnvel ritaða með annarleg sjónarmið í huga, dægurflugur sem hafa ekkert
með leiklistina sem slíka að gera. Í tilviki Jóns Viðars og bókar hans ber einnig
að gæta að því að elstu sýningar sem hann fjallar um eru frá þriðja áratug
síðastliðinnar aldar og jafnvel þótt samtímaheimildir væru hinar vönduðustu
getur annað eins og smekkur tekið breytingum og þar þarf sagnfræðin að feta
einstigið varlega ef sagnfræðingur á að vera dómbær á smekk gagnrýnanda
fyrri tíma. Á þetta hefur Jón Viðar reyndar sjálfur bent í grein sinni í Andvara,
1. tbl. 1998 (138), þar sem hann segir okkur vera „komin að einu mesta vanda-
máli í allri leiksöguritun, mati á gildi samtíða listdóma“. Þetta hefur Jón Viðar
líka fjallað um í fil.lic.-ritgerð sinni og doktorsritgerð sinni sömuleiðis.
Í viðtali við Jón Viðar sem Arnþór Helgason skrifaði og birtist í Morgun -
blaðinu fyrir rúmum áratug bendir hann aftur á þennan vanda. Hann nefnir
þar einmitt þrjá leikara sem sagt er frá í Stjörnum og stórveldi og segir að
„alltof lítið [sé til] frá mönnum eins og Indriða Waage, Þorsteini Ö. Steph -
ensen og Lárusi Pálssyni, sem voru burðarásar í nokkra áratugi um miðja
síðustu öld. Enginn þeirra virðist hafa gert sér far um að halda saman heim-
ildum um leiklistarstarf sitt“. Jón Viðar nefnir í sama viðtali Harald Björns -
son sem greinilega safnaði miklu frá sínum ferli:
ritdómar 165