Saga - 2020, Síða 168
Haraldur var afar framsýnn maður og gerði sér snemma grein fyrir því
að hann yrði brautryðjandi og að því fylgdi mikil ábyrgð. Hann hélt
afar vel utanum handrit sín, bæði leikstjóra- og hlutverkahandrit, ljós-
myndir, úrklippur, bækur og hvaðeina sem snerti list hans. Hann vissi
sem var að ýmsir hlutir eiga til að týnast í leikhúsunum og sagan segir
að hann hafi stundum kippt ýmsu lauslegu heim með sér … ég vildi
óska að hann hefði gert meira af þessu. Þá ættum við sennilega ýmis -
legt sem nú er glatað.
Þarna er í stuttu máli lýst vanda leiklistarsagnfræðingsins. Sjálft listaverkið
er horfið, ekki alltaf unnt að treysta leikdómurum og öðrum sem af hend-
ingu hafa fjallað um það og heimildir af öðru tagi tilviljanakenndar og
einatt erfitt að túlka þær svo vel fari fræðilega. Það hefði verið fengur að
því að Jón Viðar vísaði í þessar heimildir þannig að fulljóst væri hvaðan
fróðleikurinn væri sóttur, það er ekki fullnægjandi að gera það í meginmál-
inu einu.
Stjörnur og stórveldi segir frá 11 leikurum í jafnmörgum köflum. Þeir eru
ærið misjafnir að lengd og úrvinnslan um hvern og einn leikara að sumu
leyti misjöfn sem kemur trúlega til af ofangreindum vanda: Heimildirnar
eru mismunandi. Auk þess fer ekki hjá því að grunur læðist að manni að
teygt hafi verið á skilmálunum fyrir hagstæðara kynjahlutfall, það má spyrja
hvort til dæmis Soffía Guðlaugsdóttir og Sigrún Magnúsdóttir hafi raun-
verulega haft þau áhrif í íslensku leikhúslífi að réttlætanlegt sé að taka þær
með í úrval 11 leikara sem eiga að hafa átt þátt í að móta íslenska leiklist um
40 ára skeið, Soffía lést 17 árum áður en tímabilinu lauk. Hún er að vísu
borin fyrir einum mikilvægum punkti sem getið er um í einni af fjölmörgum
rammagreinum sem birtast á dreif um bókina og það er skorturinn á fag -
legri leikstjórn og vöntun á samleik á íslensku leiksviði. Það er í sjálfu sér
athyglivert en þetta er niðurstaða Soffíu eftir að hafa farið utan og séð leik-
hús á erlendri grund.
Leikararnir sem fjallað er um í Stjörnum og stórveldum eru Indriði Waage
(72 bls.), Soffía Guðlaugsdóttir (20 bls.), Arndís Björnsdóttir (22 bls.), Brynj -
ólfur Jóhannesson (26 bls.), Haraldur Björnsson (38 bls.), Sigrún Magn ús -
dóttir (10 bls.), Alfred Andrésson (26 bls.), Lárus Pálsson (68 bls.), Regína
Þórðardóttir (28 bls.), Þorsteinn Ö. Stephensen (52 bls.) og loks Valur
Gíslason (18 bls.). Hér er innan sviga getið lengdar hvers kafla en án tillits
til hversu margar rammagreinar eru í hverjum kafla eða hversu mikið rými
ljósmyndir taka.
Það er ærið vandaverk að raða þessum 11 leikurum og leikkonum
þannig saman að úr verði einhvers konar heildstætt yfirlit um þróun leik-
listar á Íslandi á þeim tíma þegar leiklist í landinu var að slíta barnsskónum
og verða að fullgildri listgrein með lögheimili í nýbyggðu Þjóðleikhúsi. Þessi
hópur er of ósamstæður til að slík þróunarsaga taki sjálfkrafa á sig mynd.
ritdómar166