Saga - 2020, Side 185
Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, LÍFGRÖS OG LEyNDIR DÓMAR.
LÆKN INGAR, TÖFRAR OG TRÚ Í SÖGULEGU LJÓSI. Vaka-Helga -
fell. Reykjavík 2019. 341 bls. Myndir, viðaukar, heimildaskrá, tilvísanir,
myndaskrá, nafna- og atriðisorðaskrá.
Lífgrös og leyndir dómar er smekkleg bók, í snotrum harðspjöldum með blóm-
um prýdda hálfkápu. Hún er fróðleg, birtir hrafl úr sögu læknislista á Ís -
landi og erlendis, vitnisburði um lækningar í fornum ritum, sýnishorn af
ýmsum læknisráðum fortíðar, sjúkdóma í samfélagslegu ljósi og allmikla
skrá yfir lækningajurtir sem notaðar hafa verið í gegnum tíðina. Hún skipt -
ist í átta kafla auk inngangs og viðauka. Inngangurinn gagnrýnir vísinda-
hyggju hefðbundinnar læknisfræði, sem er réttmætt, en þó fer lítið fyrir
grein ingu á grunnhugmyndum læknislista sem ætti þó að vera forsenda
slíkrar gagnrýni.
Fyrsti kaflinn (17–34) er um árdaga vestrænnar læknislistar hjá Grikkj -
um og Rómverjum og þróun hennar fram til elstu læknisfræði í háskólum,
klaustrum og á spítölum fram undir nútíma. Fyrst er fjallað um þríkvíslaða
þróun lækninga í Evrópu, töfralækningar, handlækningar og lyflækningar,
og byggt á greinargóðum inngangi Bens Waggoner að þýðingu sinni á
íslenskri lækningabók. Þeirri þrískiptingu er þó ekki fylgt vel eftir í bókinni
né rakið með ljósum hætti hvernig þessar þrjár greinar þróuðust. Annars
byggist kaflinn á inngangi Vilmundar Jónssonar landlæknis að Lækningum
– Curationes – séra Þorkels Arngrímssonar sem var fyrsti skólagengni íslenski
læknirinn sem sögur fara af á árnýöld. Sú bók kom út 1949, réttum 70 árum
áður en Lífgrös og leyndir dómar birtist. Margvísleg þekking á þróun vest-
rænna lækninga hefur ratað á bækur á þeim tíma þó að höfundur virðist
ekki hafa rekist á þær. Þetta er bagalegt og kaldhæðnislegt því inngangur
Vilmundar einkennist af lítilsvirðingu fyrir þekkingu fyrri tíma. Hann að -
hyllist þá vísindahyggju eða vísindatrú sem höfundur gagnrýnir í inngangi
en virðist þó að verulegu leyti hafa mótað sjónarmið eða efnistök bókar innar
sem eru þversagnakennd og stefnulaus.
Bergmálið frá Vilmundi sést í snubbóttri afgreiðslu í undirkafla um áhrif
Araba á læknisfræðina: „Arabíski læknirinn Avicenna (980–1037), sem lengi
var titlaður konungur læknanna, var kreddufastur lærisveinn Galenosar.
Hann áleit handlækningar óæðri lyflækningum, þó að sjálfur kynni hann og
beitti hvoru tveggja“ (23). Vilmundur er heimildin og orðar þetta svo:
„Avicenna, „konungur lækna“, eins og hann var titlaður, var þó einkum
kreddufastur lærisveinn Galenosar. … Avicenna kenndi beinlínis, að hand-
lækningar væru lyflækningum óæðri og lærðum læknum ósamboðnar …“
(77). Hér eru gamlir fordómar á kreiki og orðalag tekið upp án auðkenn -
ingar. Ónákvæm tilvísun er þremur efnisgreinum aftar og vísað til rangrar
blaðsíðu.
ritdómar 183