Goðasteinn - 01.09.1998, Page 48
Goðasteinn 1998
eigin kompu við hliðina á baðstofunni
og var þar oft þungt loft. A sumrin svaf
hann á lofti yfir sjúkraskýlinu ásamt
öðrum vinnumönnum og var þó langt á
milli þeirra. Eftir að gamla húsið á
Stórólfshvoli var rifið, bjó hann í við-
byggingu frá því. Þar var áður biðstofa,
móttökuherbergi læknis og lyfjabúr og
því vel rúmt um Gvend. Hann var
skapbráður og þoldi illa stríðni, a.m.k.
var okkur bræðrum sögð sú saga, að
eitt sinn hefði strák verið bjargað úr
höndum hans er hann ætlaði að ganga
frá honum í djúpan brunn. Ef til vill var
þetta aðeins aðvörun, ég held að við
höfum sjaldan strítt honum og svo var
einnig um annað heimilisfólk.
Guðmundur hafði gaman af söng og
á vetrarkvöldum söng hann oft mikið
og hátt, stundum úti í kirkjugarði,
heyrðust þá hljóðin niður í þorpið og
vöktu ugg hjá ungum börnum. Oft mun
Gvendur hafa heimsótt Björn Fr.
Björnsson, sýslumann og spilaði þá
Björn á orgel en Guðmundur söng.
Björn hefur sagt nrér að röddin hafi
ekki verið fögur og ekki var hann sér-
lega lagvís. Aldrei sá ég Guðmund með
blað eða bók í hönd, þó ætla ég að
hann hljóti að hafa verið læs. Hann átti
allmikið af bókum, mest sálmabækur,
ljóðmæli Matthíasar og fleira og kunni
hrafl í þessum fræðum.
Flest kvöld fór Guðmundur að
heiman, oftast á næstu bæi, Króktún,
Þinghól eða Miðhús, og eftir að þorp
tók að myndast í Hvolsvelli var hann
tíður gestur þar hjá ýmsum vinum sín-
um. Eg tel mig vita að honum hafi yfir-
leitt alls staðar verið vel tekið. Á vetr-
arkvöldum hafði hann ævinlega með
sér olíulukt og vegna göngulags hans
var auðséð á löngu færi hver þar væri á
ferðinni. Stundum brá hann sér út á
Selfoss og heimsótti þá m.a. Egil jarl í
Sigtúnum, en Guðmundur mun hafa
þekkt hann frá dvöl sinni í Kirkjubæ.
Ekki mataðist Guðmundur með öðru
fólki. Hans sæti var við hliðina á for-
Iáta AGA eldavél og átti sína eigin
matarskál. Ef skyr eða hræringur var á
borðum og kalt var í veðri var Guð-
mundur vanur því að stinga skálinni
inn í ofninn á eldavélinni og hita það.
Brunnu þá oft brúnar skófir við barm-
ana. Sagt er að breskir hermenn hafi
matbúið skyrið á sama hátt er þeir
dvöldu hér.
Á síðustu árum sínum kvartaði Guð-
mundur mjög um aukin þvaglát og
leysti það mál með því að fá sér stærra
og stærra næturgagn, en að síðustu
þurfti hann einnig að bæta við stórri
fötu. Móðir mín sagði mér, að oft hefði
hún beðið aðstoðarlæknana að athuga
þvagið frá Guðmundi, hvað þeir hefðu
gert, en þeir hefðu aldrei leitað að sykri
í því og að lokum kom það í ljós, að
Guðmundur Ögmundsson var með
sykursýki og úr þeim sjúkdómi andað-
ist hann á Landspítalanum 1948. Hann
var einn af þessum kynlegu kvistum
sem nú líklega sjást sjaldnar en áður.
Allt það sem hér hefur verið frá
honum sagt er skráð eftir minni og við
mig einan að sakast, ef rangt er frá
skýrt.
-46-