Goðasteinn - 01.09.1998, Page 118
Goðasteinn 1998
Heill og sæll! Við hestaskál
hefjum sönginn, Pétur.
Öræfanna unaðsmál
enginn skilur betur.
Ef til fjalla ferð er gjör,
felast hættur mestar.
Duga síst í svaðilför
„sumarbúðahestar“.
Snillinganna gripin greið
greypt svo dýru letri,
hafa fáir lífs á leið
leikið eftir Pétri.
Sungu fell og fjallaþil,
fákar götu stukku.
Þá var gott að grípa til
Grástakks eða Lukku.
Verði leiðin völt og hál,
vaxi tak í baki,
lífgar hug og léttir sál
lögg af koníaki.
Norðan fjalla, sunnan sands,
seiða kunnar slóðir,
þræðir hugur leiðir lands,
lifna brunnar glóðir.
Þegar skuggi skyggði ból,
skýjatrafi ofinn,
vegamóðum vörn og skjól
veitti dalakofinn.
Hóf þar léttur logadans
leik um þil og veggi,
líkt og sporin léttfetans
lífga þreytta seggi.
Kveðnar voru kvöldin löng
kvæðastemmur snjallar.
Tóku undir tal og söng
tindar, björg og hjallar.
Hér í faðmi fjallahrings,
friði bjartrar nætur,
ævintýri íslendings
ylja hjartarætur.
Hverfa burtu æviár
út í húmið svarta.
Þó að stundum svíði sár,
síst er ráð að kvarta.
Gegnum lífsins volk og vos
vöðin tæp að hitta,
léttur hlátur, lítið bros
leiðir allar stytta.
Þegar skaflar byrgja braut,
brostið ísinn getur,
skal þá sýna þrek í þraut,
þetta gerir Pétur.
Hvergi deigur hélt úr vör,
hættur síst var flúið.
Hefur þó úr hverri för
heill tií baka snúið.
*
Loks er verður, lútum því,
lífsins fákur dettinn,
hláturmildur hlaðið í
hleyptu lokasprettinn.
-116-