Goðasteinn - 01.09.1998, Page 178
Goðasteinn 1998
Allir lækir og gil voru uppbólgin og
erfið yfirferðar. Þeir höfðu að brjóta
niður skarirnar með bílnum, sem var
þungur Dodge Weapon L-260, frægur
bíll sem lengi var undir stjórn Sveins í
Lækjartúni. Þegar þeir komu niður
undir Tungnárgljúfur, fyrir innan
kláfinn, þurftu þeir að þræða sig upp til
að komast til okkar og tók það langan
tíma. Þegar menn eru að móta nýjar
leiðir verður alltaf að fara varlega. Nú
var mikill raunur fyrir þá að vera
komnir á auða jörð og gaddfreðna svo
þetta gekk allt upp.
Ekki man ég hvenær við vorum
búnir að flytja okkur yfir ána, en það
mun hafa verið rétt fyrir myrkur.
Eg held að allir hafi verið ánægðir
með ferðalagið þegar upp var staðið.
Við höfðum heyrt í talstöðinni að
Gnúpverjar væru að fara í sína seinni
eða þriðju leit, og það man ég að við
vorum að tala um að við öfunduðum þá
ekki af að berjast á móti norðaustan
storminum sem auðsjáanlega var í að-
sigi, enda kom það á daginn að þeir
urðu að láta undan síga og sneru við.
Við sáum eina kind frá þeim í Gljúfra-
reit og létum vita af henni, en komið
var fram á jólaföstu þegar hún loksins
fannst, þá var hún komin fram í Hóla-
skóg að mig minnir. Jæja, við vorum
ánægðir með að vera búnir að smala
hjá okkur og hafa náð 27 kindum úr
þessari snjódyngju.
Það var 7. október og þá mun þetta
hafa verið 9. dagur eftirleitarinnar.
Þetta er sú lengsta eftirleit sem ég hef
farið sem eru þó orðnar 23 eða 24. Við
tókum okkur saman og gengum vel frá
öllu, síðast settum við hestana á vagn-
inn og ég dreif mig af stað heim. Ekki
var útlit fyrir annað en hann færi að
snjóa, enda fór það svo að snjórinn elti
okkur alla leið niður undir byggð. Eg
held að okkur öllum hafi þótt jafn gott
að komast heim, að minnsta kosti
fannst mér það. Þó að ferðir eins og
þessi væru erfiðar, skildu þær alltaf
mikið eftir, þá myndast oft sterk eining
með mönnum sem endist lengi. Allir
komust heilir og óskemmdir heim til
sín og vil ég þakka öllum fyrir sam-
starfið í þessari erfiðu ferð.
Vísur Sveins
Að síðustu ætla ég að láta fljóta með
nokkrar vísur sem Sveinn í Lækjartúni
orti í þessari eftirminnilegu ferð.
Úti er æði svart að sjá,
sést lítt fyrir fönnum.
Unaðsleg er ævin hjá
eftirleitarmönnum.
Ef að ekki bráðum birtir
best er að skríða í poka á ný
öllu ráði og rænu firrtir
ráðskonan sér fyrir því.
Nætur þrjár í þessum skúr
þurftum við að sofa
allir fengu einhvern lúr
í eftirleitarkofa.
Ekki finnst mér gatan greið
í gírnum ek ég fyrsta.
Ef ég kemst ekki alla leið
ætla ég að gista.
-176