Goðasteinn - 01.09.1998, Side 304
ANNÁLAR
Goðasteinn 1998
Dánir
Bjarni, Ester yngri, Þorsteinn Ólafur og
yngst er Erna.
Þér frjálst er að sjá, hve ég bólið mitt bjó,
ef börnin mín smáu þú lætur í ró.
Þú manst, að þau eiga sér móður.
Og ef að þau lifa, þau syngja þér söng
um sumarið blíða og vorkvöldin löng.
Þú gerir það, vinur minn góður.
Þessar ljóðlfnur Þorsteins Erlings-
sonar voru Sigríði kærar, og eiga vel
við lyndiseinkunn hennar og móðurást,
en hún var einlægt minnug sinna móð-
urskyldna, og stóð dyggan vörð um
hreiðrið sitt, garðinn sem markaði
hennar helgasta reit í lífinu. Öll nutu
börnin hennar mikils ástríkis hennar,
sem hún veitti af auðlegð hjarta síns er
aldrei þvarr, þrátt fyrir kröpp kjör hið
ytra og stundum sára fátækt. Þær að-
stæður voru ekki alltaf sársaukalausar,
en beygðu þó hvorki né brutu viljastyrk
Sigríðar og sjálfsbjargarhvöt. Hún
gerði miklar kröfur til sjálfrar sín, og
krafðist líka mikils af öðrum, gædd
ríkri réttlætiskennd og umhyggjusemi
fyrir málstað þeirra er halloka fóru í
lífinu. Hún átti blíða lund og létta, og
hinar spaugilegu hliðar lífsins duldust
ekki svo greindri og gamansamri konu.
Menning og manndómur barnanna var
henni mikilvæg hugsjón, og þeim
miðlaði hún af munni og höndum öllu
sem hún sjálf hafði numið og kunni, og
var henni í blóð borið. Sigríður var afar
Ijóðelsk kona og bókhneigð, og lagði
glöggt á minnið það sem henni þótti
miklu varða. Einkum var henni ætt-
fræði hugleikin, og hafði á sviði hennar
mikla þekkingu og yfirsýn.
Sambúð Sigríðar og Markúsar
bónda hennar var alla tíð farsæl og
traust. Þegar aldurinn færðist yfir seldu
þau bú sitt í hendur Þorsteini, syni
sínum árið 1973, en áttu áfram heima í
skjóli hans í Borgareyrum, þar sem
Markús starfaði að iðn sinni óslitið til
dauðadags hinn 28. júlí 1988.
Sigríður dvaldi tíma úr sumrum
heima eftir að heilsan tók að þverra, en
bjó í Reykjavík hjá Hrefnu dóttur sinni
að Bláhömrum 4 þar í borg síðustu
árin. Annaðist Hrefna hana af stakri
alúð, umhyggju og kærleika, svo ekki
varð á betra kosið. Hugarstyrk sínum
og andlegri reisn hélt Sigríður uns yfir
lauk. Hún lést á Sjúkrahúsi Reykja-
víkur í Fossvogi 1 1. febrúar 1997,
tæpra 92ja ára að aldri. Sigríður var
jarðsett í Stóra-Dal 22. febrúar 1997.
Sr. Sigurður Jónsson í Odda.
-302-