Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 2020, Side 12
11
Veröld sem var - Glefsur úr sögu símans á Fljótsdalshéraði
mikill í tengslum við símann og stundum
þurfti að senda langar leiðir með símskeyti
eða kvaðningu til fólks sem boðað var í síma.
Á korti yfir símstöðvar á Íslandi frá árinu
1926 má sjá að þá var búið að leggja símalínu
frá Egilsstöðum í Eiða, áfram í Hjaltastað og
Unaós þar sem var svokölluð eftirlitsstöð með
línunni sem lá yfir til Borgarfjarðar. Frá 1936
annaðist Aðalheiður Gunnarsdóttir símavörslu
á Hjaltastað. Árið 1941 var hún skipuð stöðv-
arstjóri og sinnti því starfi til ársins 1978
en þá var stöðin aflögð. Sá Aðalheiður, eða
Hadda eins og hún var oftast kölluð, rúmlega
40 ár um símann og átti samstarf við nokkrar
kynslóðir símastúlkna.
Sími kom í Eiða árið 1919. Seinna eða um
1930 komu símstöðvar á bæina Breiðavað og
Gilsárteig. Um miðjan fimmta áratuginn var
lagður sími á alla bæi sveitarinnar frá Eiðum.
Um það leyti var Jón Sigfússon skipaður
símstöðvarstjóri á Eiðum og gegndi hann því
starfi til dauðadags, en hann andaðist 1966. Þá
tók Stefanía Ósk Jónsdóttir við og starfaði þar
til hún lét af störfum fyrir aldurssakir 1987.
Var símstöðin og einnig póstafgreiðsla til húsa
á heimili hennar í Þórarinshúsi. Á Eiðum var
mannmargt á vetrum þegar skólinn starfaði
og því mikið að gera og því oft stúlkur til
aðstoðar, voru það í tíð Stefaníu oftast dætur
hennar.
Á árunum þegar Jón Sigfússon var sím-
stöðvarstjóri byrjaði dóttir hans Ásta, ung
að árum, að hjálpa til á símanum. Ásta segir
svo frá:
Símstöðvunum fylgdi erill og gestanauð. Heimamenn og gestir við bæjardyr á Fossvöllum í Jökulsárhlíð: F.v.
Sverrir Sigurðsson (f. 1906 – d. 1959), Seyðisfirði, Baldur Gunnarsson (f. 1915 – d. 1998), Gunnar Jónsson (f.
1871 – d. 1957), bóndi á Fossvöllum, Sigurveig Eiríksdóttir (f. 1885 – d. 1956), húsfreyja á Hrafnabjörgum í
Jökulsárhlíð, Karl Gunnarsson (f. 1914 – d. 1988), Guðný Gunnardóttir (f. 1905 – d. 1884), Jóhann Hermann
Gunnarsson (f. 1920 – d. 1951), Jónas Þórarinsson (f. 1894 – d. 1968), bóndi og trésmiður á Hrafnabjörgum í
Jökulsárhlíð. Eigandi myndar: Ljósmyndasafn Austurlands.