Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 2020, Síða 30
29
B
Vísnakver dregið í dagsljós
Þorsteinn Erlingsson – Páll Ólafsson
Þórður Tómasson
Byggðasafnið í Skógum nýtur þeirrar
sæmdar að varðveita í sýningu
skrifstofu Þorsteins Erlingssonar
skálds, með búnaði hennar og bókasafni.
Uppsetning hennar eftir ljósmyndum var mér
heiður og gleði í safnstarfi. Nú árið 2017
ganga flestir safngestir framhjá henni án
þess að hún snerti hjá þeim nokkra nýtilega
taug. Snillingurinn Þorsteinn, sem vakti svo
mörgum yndi með ljóðum sínum fram um
æskudaga mína, hefur horfið í skuggann við
hrun gamallar þjóðmenningar. Ég minnist
svo margra gleðistunda þar sem ljóðasöngur
lyfti mönnum í hæðir. Brjóstmynd Þorsteins,
gerð af Ríkarði Jónssyni listamanni, rís á
brekkubrún bak við Skógaskóla. Varla nokkur
maður gefur henni gaum.
Við uppröðun á bókasafni Þorsteins varð
fyrir mér handskrifað vísnakver hans, stráð
vísum og kvæðum eldri og yngri skálda frá
öllum landshlutum. Glöggt er að Þorsteinn
hefur fært efnið á kverblöð hvað eftir sem
honum barst það og mjög mikið er skráð
eftir minni manna. Ég held að kverið hafi
aldrei komist í færi við þá sem í fræðasýsli
sóttu að bókmenntaarfi þjóðarinnar. Það hefur
fjölmargt markvert fram að færa. Um ljóð
meistarans Þorsteins lætur það ekkert í té.
Páll Ólafsson á þar stærstan hlutann og kverið
bregður nokkurri birtu á skáldskap hans og
efstu ár.
Ég fagnaði þessum fundi. Páll Ólafsson
var mér líkt og handgenginn allt frá æsku.
Móðir mín Kristín Magnúsdóttir, f. 1887, var
alin upp á Ysta-Skála undir Eyjafjöllum hjá
Kristínu dóttur séra Björns Þorvaldssonar í
Holti (1807–1874), áður á Stafafelli í Lóni.
Sr. Björn og Páll voru málvinir góðir. Páll átti
einatt viðstöðu á Stafafelli í æsku Kristínar
og sjálf dvaldi hún um skeið á Ketilsstöðum
á Völlum. Hún braut oft í blað með hve glatt
var í húsi þar sem Páll var gestur og oft söng
hún við rokkinn á Ysta-Skála ljóð Páls: „Gott
áttu hrísla á grænum bala.“ Móðir mín kunni
ljóðið, lagið líka. Það loðir enn í minni mínu.
Aldrei fór Páll framhjá Holti í Reykja-
víkurferðum án þess að koma þar við og þar
keypti hann uppáhalds reiðhross sitt, Stjörnu,
víðfræga í ljóðum. Þorvaldur sonur Björns
seldi og sr. Björn sagði við hann: „Varaðu
þig á honum Páli Ólafssyni að hann fari ekki
með hana Jórunni þína næst.“ Kona Þorvaldar