Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 2020, Side 36
35
Á
Smalakofar á Upp-Héraði
Helgi Hallgrímsson
Á flestum jörðum sem liggja að fjalli
má finna leifar smalakofa, eins eða
fleiri, efst í hlíðum, eða upp undir
brúnum, eins og sagt var í minni heimabyggð.
Oftast eru þær á hjöllum þar sem vel sést yfir
landið fyrir neðan og ósjaldan er varða eða
vörðubrot þar hjá. Sælst var eftir að byggja
kofana þar sem gott var hellutak, því að þeir
voru nær alltaf byggðir úr hellum, bæði veggir
og þök. Hellur í þakinu sköruðust svo þær
steyptu af sér regni, og sjálfsagt hefur mosa
verið troðið í glufur. Þetta voru lítil hreysi,
stærðin við það miðuð að maður mátti sitja
þar inni eða liggja endilangur. Aðeins örfáir
smalakofar standa enn næstum heilir, og
verður hér sagt frá nokkrum kofum á Upp-
Héraði sem ég hef skoðað eða haft spurnir af.
Allir smalakofar og rústir þeirra eru friðlýstar
skv. þjóðminjalögum vegna aldurs.
Kofarnir hafa flestir verið byggðir af
ungum smölum, er sátu yfir kvíaám á sumrin,
enda voru þeir líka kallaðir hjásetukofar. Þeim
var oft skipað að reka ærnar upp í hlíðar, þar
sem gróður var meiri og fjölbreyttari en niðri
í byggðinni, og líka til að hlífa engjum. Lítið
er vitað um aldur smalakofanna, en líklega
hafa þeir flestir verið byggðir á 19. öld, eftir
að selfarir lögðust niður, en fráfærur voru
enn mikið stundaðar þar til á fyrstu áratugum
20. aldar.
Smalastarfið kom oftast í hlut barna eða
unglinga, sem ekki þóttu duga til annarrar
vinnu. Eru dæmi þess að jafnvel 6-8 ára börn
voru smalar, en vanalega voru þau 10-15 ára,
og gátu verið af báðum kynjum, þó strákar
væru algengari. Þau áttu oft ekki sjö dagana
sæla. Smalastarfið var kulsamt í bleytutíð,
og var þá betra en ekkert að leita athvarfs í
kofanum. Þrátt fyrir það áttu margir góðar
endurminningar úr hjásetunni, og í skáldskap
19. aldar var hún vafin rómantík í sögum og
kvæðum. Þar komu líka til erlend áhrif, því
að hjarðmennska var og er stunduð um allan
hinn gamla heim og upphafin í bókmenntum
allt frá tímum Forngrikkja. (Höfundur minnist
þess er hann sá hjarðmey með kindahóp á
Ítalíu 1956).
Metúsalem J. Kjerúlf á Hrafnkelsstöðum
ritar:
„Fráfærur og hjáseta var höfuðnauðsyn á
hverju heimili í ungdæmi mínu. Það var
yndi fólksins í þá daga, að sjá búsmalann
síga heim á kvöldin í áttina að hverjum bæ,