Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 2020, Side 92
91
Námskeiðahald á Skriðuklaustri og víðar á Austurlandi 1992–1997
Er frá sauðfjárveikivörnum
vaða menn um storð,
séra Bjarni sínum börnum
syngur varnarorð.
Sigurður dýralæknir átti sjálfur frumkvæði
að því að útbúa efni í námskeiðið, sem hann
skráði nú reyndar í gestabókina sem „Nám-
skeið í pestum og passasemi á sauðburði“.
Kom hann oftsinnis með þennan efnivið
austur og fékk undirritaðan til að útbúa ein-
hverja viðbót um fóðrun um burð og halda
með sér námskeið hingað og þangað, eins og
að hluta til má sjá skráð í töflu 1. Síðla sumars
kom hann og fyrri kona hans, Halldóra sem
nú er látin, með góðan gest með sér. Sá var
Jóhann Guðmundsson frá Stapa í Skagafirði,
hagyrðingur snjall og frægur (Jói í Stapa).
Eftir næturgistingu blöstu þessar vísur við í
gestabókinni, sem „kvittun fyrir gistingu“,
eins og þar stendur skrifað:
Þökk fyrir þessa nótt
þægileg vistin hér. (SS)
Sofið var sætt og rótt
sólskin að morgni er. (JG)
Svo bætti Jói við:
Ég gisti á fornu frægðarsetri
fögru inni í dal.
Enga nótt ég átt hef betri
og það votta skal.
Bókbandsnámskeið 10.-12. nóvember 1992. Talið f.v., fremsta röð: Sigurður Karlsson, Laufási, Jón Friðbjörnsson,
Akureyri, kennari, Ásta Jónsdóttir, Háteigi, Borgarfirði. Miðröð: Þórarinn Lárusson, umsjónarmaður, Svandís
Skúladóttir, Litla-Bakka, Sesselía Guðfinnsdóttir, Borg, Njarðvík, Guðborg Jónsdóttir, húsfreyja á Skriðuklaustri.
Aftasta röð: Bragi Björgvinsson, Höskuldsstaðaseli, Halldór Einarsson, Teigargerði, Reyðarfirði, Rósa Elísabet
Erlendsdóttir, Fellsási og Friðbjörg Midjord, Fellsási (Ljósmynd í eigu Sesselíu Guðfinnsdóttur, Borg, Njarðvík).