Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1981, Blaðsíða 41
SVERÐIÐ UR HRAFNKELSDAL
45
Beitarhúsasmali á Bakkastöðum gat einnig átt mörg erindi út í Teig og er
því engan veginn útilokað að Benedikt ísaksson hefði fundið sverðið á ystu
mýrinni á Teignum, er hann var beitarhúsasmali á Bakkastöðum. Er því rétt
að líta á fleira áður en leiddar verða að því líkur hvar sverðið hafi helst fundist.
í þeim gögnum sem vitnað hefur verið til hér að framan er getið um fjóra
fundarstaði sverðsins. Er það raunar ekki minna en vænta mátti samkvæmt
almennum reglum um munnlega geymd, þegar haft er í huga hver manna-
skipti höfðu orðið á umræddu svæði frá því sverðið fannst og til þess tíma er
farið var að grennslast fyrir um fundarstað og fundaratvik. En nú er rétt að
líta á þessa fundarstaði hvern fyrir sig.
Þegar sverðið var gefið Statens historiska museum í Stokkhólmi, var það
sagt fundið í haugi Hrafnkels Freysgoða.
Enginn heimildarmanna í Hrafnkelsdal eða nágrenni hafði heyrt þessa til-
gátu og er því trúlegast að hún hafi komið upp utan landsteinanna. Mun þvi
varla ástæða til að taka þessa tilgátu um fundarstað alvarlega.
Óljósar heimildir hermdu að sverðið hefði fundist í Hrafnkelu. Þær heim-
ildir verða heldur ekki raktar til þess manns sem þrír heimildarmenn nefna
óháð hver öðrum að hafi fundið sverðið. Mun því einnig mega hafna þessum
möguleika.
Þá eru tveir fundarstaðir eftir, ysta mýrin í Teignum og Skænudalurinn.
Þeir heimildarmenn sem nefndu þessa staði, báru báðir, að finnandinn hefði
sjálfur sagt þeim. Báðir voru þessir heimildarmenn mínir fróðir og geymnir á
fornan fróðleik, svo að öðru jöfnu var þeim vel treystandi. En alla getur mis-
minnt sem alkunna er. Minni eins manns er ófullkomið eins og hver og einn
getur trúlega sannfærst um með því að líta í eigin barm. Ég talaði aðeins einu
sinni við Bjarna Gíslason og hafði því miður ekki tök á að spyrja hann nánar um
þessa hluti, því að hann var látinn, er ég fékk upplýsingar um annan fundarstað
en hann hafði bent á. Sverri gat ég hins vegar spurt frekar um það sem mér hafði
láðst að inna hann eftir í fyrra skiptið. En vitnisburði þessara manna verður
að vega og meta eins og þeir standa, en þó má einnig líta á fleira.
Hrafnkelsdalssverðið er óvenju vel varðveitt miðað við hliðstæða gripi
jafngamla. Ég hef leitað til Sigurðar Þórarinssonar prófessors og spurt hann,
hvort líklegra væri að það hefði varðveist á þennan veg í mýri eða sendnum
jarðvegi. Kvað Sigurður að öðru jöfnu líklegra að sverðið hefði varðveist í
sendnum jarðvegi.13 Frá því sjónarmiði er Skænudalurinn liklegri fundar-
staður en ysta mýrin í Teignum.
Þór Magnússon telur í grein sinni: Endurheimt fornaldarsverð, ,,...útlit
sverðsins þesslegt að það hafi fundist í uppblæstri.“ Uppblástur hefur verið
mikill í Skænudalnum og þar voru geysihá rofabörð á fyrri hluta þessarar
aldar. Hins vegar hefur ekki verið um uppblástur að ræða á ystu mýrinni í