Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1981, Side 111
ÞÓR MAGNÚSSON
MYNDIN AF STEINI BISKUPI JÓNSSYNI
Svo hefur verið talið, að málverkið af Steini biskupi Jónssyni á Hólum, sem
er í Þjóðminjasafni íslands og komið úr Hóladómkirkju (Þjms. mms. 23), sé
eftir Hjalta prófast Þorsteinsson í Vatnsfirði. Segir Þorvaldur Thoroddsen í
Landfræðissögu íslands, II, bls. 288, að Hjalti hafi gert mynd af Steini eftir
mynd, sem gerð hafi verið ytra, og þetta tekur Matthías Þórðarson upp í ís-
lenzkum listamönnum I, bls. 5, en segir þar, að mynd Hjalta muni glötuð. í
handskrifaðri skrá safnsins segir Matthías hins vegar, að sennilegast sé, að
þetta málverk sé einmitt eftirmyndin, sem Hjalti gerði, en frummyndin muni
hafa verið gerð í Kaupmannahöfn er hann hafði vígst, en hafi verið skemmd
orðin 1727 og Hjalti þá gert nýja mynd eftir hinni.
Þorvaldur getur ekki heimilda fyrir því, að mynd hafi verið gerð af Steini
ytra. En Matthías telur myndina gerða milli 1727 og 1728 samkvæmt áletrun-
inni á myndinni, að hún sé af Steini 68 ára gömlum, en hann var fæddur 1660.
Til er hins vegar bréf frá Steini biskupi til séra Hjalta, skrifað 1. mars 1730
(í AM 410 fol., blað 83, nú í Stofnun Árna Magnússonar í Reykjavík), og er
biskup þar að þakka Hjalta fyrir myndina. Virðist þar glöggt koma fram, að
Hjalti hafi málað mynd biskupsins eftir minni og án nokkurrar fyrirmyndar
og hafi því vart önnur mynd verið til af Steini fyrir. í bréfinu segir:
,,í hitteðfyrravor meðtók ég yðar æruverðugheita elskulegt tilskrif, og þvi
fylgjandi þæga sendingu, vel umbúna. Síðan meðtók ég nú í sumarið var
annað yðar elskulegt tilskrif, af dato 3. Julii næstliðinn, sama efni viðvíkjandi
sem hið fyrra... Kontrafeyið acceptera ég fegins hendi, geðjaðist mér það
vel, og var ekki von til að þér kæmist nær minni mynd en þér gjörðuð.
Skeggið var nokkuð lítið, og brýrnar nokkuð dökkvar, mætti og ske það hefði
þar af orðsakast, að nær það kom mér í hönd, var það ekki fullþurrt, og náði
ekki hörundsliturinn sér svo fljótt. Lét ég um sumarið þetta kontrafey sigla
með mér gagnkunnugum manni, hvör eð lét nokkuð þetta hvertveggja um-
bæta, svo og setja gylltar rámur í kring, og kom það svo aftur árinu seinna.
Líkar mér svo þetta yðar málverk í allra besta máta.“