Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1981, Side 169
SKYRSLA UM ÞJÓÐMINJASAFNIÐ 1980
173
tungum, steinhús frá 1913, sem raddir hafa komið upp um að varðveita. Það
er að mestu óbreytt frá fyrstu gerð og þarna kjörið tækifæri til að varðveita
gott sýnishorn af skólahúsi frá þeim tíma, er farið var að reisa slík hús úti um
landið, en ekki er vitað, hver muni hafa forgöngu um það verk.
Þá fóru þeir sömu einnig skoðunarferð til Húsavíkur og Akureyrar 25. og
26. júní, einkum vegna viðgerðar Húsavíkurkirkju og hugsanlegrar viðgerðar
gömlu kaupfélagshúsanna þar. Húsavíkurkirkja er af sömu megingerð og
Hjarðarholtskirkja og Breiðabólstaðarkirkja í Fljótshlíð, sem allar eru reistar
eftir teikningum Rögnvalds Ólafssonar, en langstærst og vönduðust þeirra
allra. Stóð til að mála þessa merku kirkju og gera við það sem tekið var að
bila, sem er einkum turninn. Var lögð áhersla á að breyta henni í engu, en lag-
færa það sem aflaga hefur farið.
Gömlu kaupfélagshúsin voru reist fyrir síðustu aldamót og er nú hætt að
nota þau. Var helst gert ráð fyrir að rífa þau, eða jafnvel færa úr stað, en þau
standa þröngt milli aðalgötunnar og sjávarbakkans. Hins vegar verður að
segja, að þau eru afarmerkileg, líkast til einu verslunarhús sinnar tegundar,
sem nú standa. Og þar sem Kaupfélag Þingeyinga er elsta kaupfélag landsins
og hóf fljótlega að starfa í þessum húsum eru þau sögulega merkileg. Þau eru
þó hálfilla farin, meðal annars vegna bruna fyrir fáum árum, en við athugun
þótti einsýnt, að hægt væri að gera þau upp og láta þau standa framvegis á
sinum stað, sem er i rauninni hið réttasta. Mundi kaupfélagið geta haft þeirra
ýmis not fyrir verslun eða á annan hátt, en áformað er að leggja aðalleiðina
gegnum kaupstaðinn annars staðar og jafnframt byggja við núverandi
verslunarhús til austurs, þannig að umferðin færist þá fjær gömlu húsunum.
Virtust forráðamenn kaupfélagsins mjög jákvæðir gagnvart tillögum um
varðveislu húsanna, enda ótvirætt til menningarauka.
Þá var einnig skoðaður gamli Húsavíkurbærinn, prestsetrið sem stendur
ofarlega i kaupstaðnum á hinu forna bæjarstæði. Bærinn hefur verið í
þremur röðum með burstum til suðurs, en nú er austasta röðin horfin og bær-
inn allur kominn mjög á fallanda fót. Skátar á Húsavík hafa hins vegar fengið
bæinn til umráða sem skátaheimili og eftir viðræður við forráðamenn skáta-
félagsins virtist fullur hugur á að varðveita bæinn og gera við hann, enda
getur hann orðið mjög hentugur i þessu skyni. Bærinn setur svip á umhverfi
sitt, en bæjarstæðið, gamli kirkjugarðurinn og kirkjustæðið gamla er þarna
óspillt ofan við íþróttaleikvanginn og virðist ekki þurfa að þrengja að verði
tekið tillit til þessa í skipulagi.
Húsavíkurkirkja, sem stóð næst á undan núverandi kirkju, var rifin og reist
úr henni íbúðarhús, Kirkjubær, sem rifið var þetta sama sumar. Var til mikið
brak úr kirkjunni og ætlaði byggðasafnið að hirða hið heillegasta úr viðunum
sem sýnishorn.