Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 01.01.1981, Qupperneq 177
FRÁ FORNLEIFAFÉLAGINU
181
AÐALFUNDUR 1981
Aðalfundur Hins íslenzka fornleifafélags var haldinn hinn 17. des. 1981 í Fornaldarsal Þjóð-
minjasafnsins og hófst kl. 8.40. Fundinn sátu um 45 manns.
Formaður félagsins, dr. Kristján Eldjárn, setti fundinn og minntist fyrst þeirra félagsmanna,
sem stjórnin hefur haft spurnir af, að látizt hafi, síðan aðalfundur var síðast haldinn. Þeir eru:
Björn Bjarnfreðsson verkamaður.
Geir Gígja náttúrufræðingur.
Guðmundur Benediktsson.
Helgi P. Briem fv. sendiherra.
Jón Auðuns dómprófastur.
Jón Guðjónsson fv. bæjarstjóri.
Jón Helgason rithöfundur.
Ólafur Þ. Kristjánsson fv. skólastjóri.
Páll Gíslason bóndi á Aðalbóli.
Sigmundur Sigurðsson í Syðra-Langholti.
Þórleifur Bjarnason rithöfundur.
Risu fundarmenn úr sætum í virðingarskyni við hina látnu.
Formaður skýrði frá því, að Árbók Fornleifafélagsins væri væntanleg snemma á næsta ári. Þá
skýrði hann frá registri yfir Árbók félagsins um árin 1954-1979, sem Vilhjálmur Einarsson á Sel-
fossi hefur samið, og yrði reynt að hraða útgáfu þess eftir föngum. Enn fremur minnti hann á
ljósprentun eldri árganga Árbókarinnar á vegum Hafsteins Guðmundssonar bókaútgefanda.
Þessu næst las gjaldkeri reikninga félagsins 1980.
Þá var gengið til stjórnarkosningar til tveggja ára. Endurkosnir voru með lófataki dr. Kristján
Eldjárn formaður, Þórhallur Vilmundarson skrifari og Gísli Gestsson gjaldkeri. Varaform.,
Magnús Már Lárusson, baðst undan endurkjöri, og var Hörður Ágústsson kosinn í hans stað með
lófataki. Á sama hátt voru endurkosin Mjöll Snæsdóttir varaskrifari og Þór Magnússon vara-
féhirðir. Enn fremur voru endurkosnir í stjórn félagsins til aðalfundar 1985 Þórður Tómasson,
dr. Sigurður Þórarinsson og dr. Sturla Friðriksson. Loks voru þeir Höskuldur Jónsson og Páll
Líndal endurkosnir endurskoðendur reikninga félagsins.
Þá kvaddi Auðun Einarsson sér hljóðs og vakti athygli á nauðsyn á frímerkjaútgáfu í tilefni
þúsund ára afmæli Grænlandsfundar á næstunni. Taldi hann þörf á, að til þeirrar útgáfu yrði
vandað sem bezt. Jafnframt minntist hann á þörfina á að safna fleiri áskrifendum að Árbók fé-
lagsins og varpaði fram þeirri hugmynd, að félagið gengist fyrir árshátíð. Formaður taldi þessar
ábendingar ræðumanns athyglisverðar.
Ágúst Georgsson tók næstur til máls og bar fram þá tillögu, að biitar yrðu skýrslur byggða-
safna í Árbók félagsins og einnig yrði framvegis birt í Árbókinni skýrsla Þjóðminjasafnsins um
næstliðið ár. Formaður kvaðst sem ritstjóri Árbókar vilja taka þetta mál til athugunar, en mæltist
undan, að fundurinn samþykkti tillögu um, að þetta skyldi gert. Samþykkti tillögumaður að
breyta tillögu sinni í tilmæli um, að ritstjóri og stjórn félagsins tæki uppástunguna til athugunar.
Þeir Jón Steffensen og Þór Magnússon lögðu orð í belg um fyrrnefnda tillögu.
Hafsteinn Guðmundsson gerði þessu næst grein fyrir því, hvað ljósritun Árbókar Fornleifafé-
lagsins líður. Komin eru út fjögur bindi og hið fimmta á leiðinni. Gerir hann ráð fyrir því, að tvö
bindi til viðbótar komi út á næsta ári.