Árbók Landsbókasafns Íslands - Nýr flokkur - 01.01.1987, Blaðsíða 76
76
BRÉF NOKKURRA FRÆÐIMANNA
The University of North Dakota
Grand Forks, 15. sept. 1941
Department of Scandinavian Languages
Heiðraði vin,
Sökum margvíslegra anna, sérstaklega í sambandi við langa fyrir-
lestraferð í sumar í þágu íslenzkra þjóðræknis- og félagsmála, vannst
mér eigi tími til að senda Skírni neitt til birtingar, en mun reyna að
bæta það upp á næsta ári. En þar sem mér er dálítið annt um starf-
semi Bókmenntafélagsins, ritaði ég á dögunum í Heimskringlu umgetn-
ing um bækur félagsins í fyrra og læt hana fylgja hér með; ég mun
einnig á næstunni skrifa um bók dr. Einars Ól. Sveinssonar um þjóð-
sögurnar.
Ég er nú rétt að byrja kennslu að nýju og hefi því mörgum hnútum
að hnýta. Norrænudeildin hér er fimmtug á þessu hausti, en um það
mun eitthvað koma í íslenzku blöðunum hér vestra áður langt líður.
Með beztu kveðju.
Yðar einlægur
Richard Beck
The University of North Dakota
Grand Forks, 28. júlí 1942
Department of Scandinavian Languages
Heiðraði vin,
Fyrir löngu síðan sendi ég yður til væntanlegrar umsagnar Almanak
Ó. S. Thorgeirssonar, sem ég er nú ritstjóri að. Þætti mér vænt um að
vita við hentugleika, hvort þér hafið fengið ritið.
Þá sendi ég yður fyrir langa löngu síðan afsökun mína fyrir það, að
ég gat eigi annríkis vegna ritað í tæka tíð minningargreinina um
Thomas Hardy, þó að ég hefði viðað að mér efni í hana, en mig
grunar, að þér hafið aldrei fengið það bréf mitt, og er það þá eitt af
mörgum, sem aldrei hafa komizt til skila.
Ég fékk aldrei Bókmenntafélagsbækurnar frá í fyrra, og hefi ég
nýlega skrifað Matthíasi Þórðarsyni, bókaverði félagsins, og beðið
hann að senda mér þær ásamt með bókunum í ár, en án rita félagsins
vil ég ekki vera. Ég vona, að þér hafið fengið bréf mitt með
umgetningu minni úr Heimskringlu um ritin fyrir árið 1940.
Með kærri kveðju og beztu óskum.
Yðar einlægur ^