Morgunblaðið - 08.12.2001, Blaðsíða 52
MINNINGAR
52 LAUGARDAGUR 8. DESEMBER 2001 MORGUNBLAÐIÐ
✝ Sigurjón Lárus-son fæddist á
Hamri í Svínavatns-
hreppi 6. september
1937. Hann lést á
Heilbrigðisstofnun
Blönduóss 30. nóv-
ember síðastliðinn.
Foreldrar hans voru
hjónin Lárus Sig-
urðsson, f. á Vöglum í
Vatnsdal 21. apríl
1906, d. 14. okt. 1983,
og kona hans, Kristín
Sigurjónsdóttir, f. á
Tindum Svínavatns-
hreppi 22. apríl 1915,
d. 16. feb. 1992. Sigurjón var
ókvæntur og barnlaus. Systkini
Sigurjóns voru Gunnar Ómar, f. 1.
jan. 1942, d. 18. mars 1948, og
Gunnhildur, f. 22. jan. 1951, gift
Sigurði Ingþórssyni, búfræðingi,
verslunarmanni og bónda á Tind-
um. Börn þeirra eru: a) Lárus
Gunnar húsasmiður, f. 5. apríl
1972, b) Sigurjón Ingi, sölu- og
þjónustustjóri, f. 9. maí 1973, sam-
býliskona Berglind Pálsdóttir, f.
4. maí 1974, dóttir þeirra er Mar-
grét Ýr, f. 16. okt. 1997, c) Kristín
Rós hjúkrunarfræðingur, f. 6. nóv.
1975, sambýlismaður Ingibjörn
Eðvarð Sigurjónsson, f. 8. sept.
1965, dóttir þeirra
er Ágústa Rós, f. 16.
ágúst 1997.
Sigurjón flutti
með foreldrum sín-
um að Tindum í
Svínavatnshreppi
1944, og ólst þar
upp. Hann hóf bú-
skap á Tindum, fyrst
í samvinnu við for-
eldra sína 1959 og
bjó þar til dánar-
dags, síðustu árin,
eftir að hann missti
heilsu, í sambýli við
Sigurð, mann Gunn-
hildar. Sigurjón var búfræðingur
frá Hólum í Hjaltadal. Hann kom
nokkuð við sögu félagsmála í sveit
sinni og héraði, átti m.a. sæti í
hreppsnefnd Svínavatnhrepps frá
1962–1994. Oddviti var hann
1978–1994, á þeim tíma var
Blönduvirkjun byggð og kom
hann töluvert við sögu vegna
samninga þar um. Aðaláhugamál
Sigurjóns í seinni tíð voru ætt-
fræði og þjóðlegur fróðleikur, auk
verndunar íslenskrar náttúru, að-
allega fjall- og heiðlendis.
Útför Sigurjóns fer fram frá
Blönduóskirkju í dag og hefst at-
höfnin klukkan 14.
Það er með söknuði og sorg sem
við systkinin og fjölskyldur okkar
kveðjum ástkæran frænda okkar,
Sigurjón Lárusson frá Tindum. Á
stundum sem þessum virðast orð fá-
tækleg en munu um alla framtíð
varðveita minningu um elskulegan
frænda.
Elsku frændi. Það eru margar
minningar sem fara í gegnum huga
okkar á þessari stundu og mjög erf-
itt að sætta sig við að lífi þínu sé lok-
ið, það er svo mikið eftir að ræða og
gera.
Elsku nafni og frændi, það er svo
margt að minnast frá þeim tíma sem
ég dvaldi sem mest hjá þér og ömmu
á Tindum. Ég man hvað mér þótti
vænt um það þegar ég var aðeins 11
ára gamall að þú treystir mér fyrir
því að aka um túnin á dráttarvél og
ganga í vélastörfin, kvöldin sem við
sátum saman og ræddum um lífsins
gagn og nauðsynjar, hestaferðirnar í
Tungunes til að athuga með villistóð-
ið, eins og við kölluðum það alltaf.
Ég á eftir að sakna hvað mest að
geta ekki hringt í þig eða komið við
hjá þér, sest niður og spjallað. Mér
þótti mjög vænt um þann tíma sem
við áttum saman þegar þú lást á
Landspítalanum þar sem við gátum
eytt heilu kvöldunum í spjall. Þegar
kom að skírn dóttur minnar var aldr-
ei nein spurning hver ætti að halda
henni undir skírn eða hvar ætti að
skíra hana; það var mín leið til að
þakka þér þær fjölmörgu stundir
sem við áttum saman. Litla fjöl-
skyldan mín mun um ókomna fram-
tíð bera ást og virðingu þína fyrir
brjósti.
Elsku frændi, þegar ég hugsa um
þær minningar sem ég á um þig og
sveitina er það sem fyrst kemur upp
í hugann hversu lipur þú varst að
snúast í kringum mig, þær voru ófá-
ar ferðirnar sem þú sóttir mig á
Blönduós þegar ég vildi komast í
sveitina til þín og ömmu og þegar ég
spilaði á píanóið hennar ömmu
komst þú vanalega og settist hjá mér
og hlustaðir á mig spila. Við Ingi-
björn gleymum því seint þegar við
sögðum þér hvert nafn dóttur okkar
væri og þú fórst að leita í ættar-
skrám hvort nafnið Ágústa fyndist
þar. Þær eru ófáar ferðirnar sem við
höfum komið norður og komið við í
sveitinni og hafðir þú gaman af að
fylgjast með Ingabirni vinna og oft
gekkst þú í kringum bæinn til að sjá
hvað hann væri að bralla. Framund-
an eru erfiðir tímar hjá mér og fjöl-
skyldu minni þar sem við ákváðum
núna í haust að taka við búinu á
Tindum með vorinu og vorum við
alltaf viss um að þú myndir fylgja og
leiðbeina okkur fyrstu skrefin sem
við tækjum þar. Þú gekkst á eftir
okkur um að flytja sem fyrst lög-
heimilið að Tindum og vorum við að
koma frá því þegar mamma hringdi
og tilkynnti hvað hefði gerst og náð-
um við ekki að segja þér frá þessu,
en við getum verið viss um að þú
fylgist með okkur frá öðrum stað.
Við fjölskyldan þökkum þér fyrir all-
ar þær stundir sem við áttum með
þér og allar þær minningar sem við
eigum með þér geymum við í hjarta
okkar.
Kæri frændi, en annað var Sig-
urjón á Tindum aldrei kallaður af
okkur systkinunum. Sem elstur af
okkur systkinunum langar mig að
minnast þeirra mannkosta sem þú
hafðir að geyma sem hefur verið
veganesti okkar systkinanna í lífinu.
Mitt uppeldi var að stórum hluta á
Tindum, hjá afa, ömmu og frænda.
En þar undi ég mér best fram á ung-
lingsárin. Þegar ég lít til baka til
bernskuáranna er mér efst í huga
hve barngóður og hjartahlýr maður
frændi var. Hann var ávallt sá er
reyndi að koma fyrir mann vitinu
þegar maður var eitthvað ósáttur,
með sinni þolinmæði og tala við mig
eins og fullorðinn væri. Einnig er
sterkt í minningunni hve góðum
tengslum hann náði við vinnumenn
er hann hafði, sem lýsir sér best í því
að þessir strákar komu sumur eftir
sumur og síðan löngu eftir það í
heimsóknir eftir að þeir náðu fullorð-
insaldri. Margir þessara stráka
komu frá erfiðum heimilum, en eftir
vist hjá frænda fóru þeir til baka
sem þroskaðir og hugsandi menn,
því vel lesinn var frændi og fróð-
leiksmaður mikill sem hafði gaman
af að miðla öðrum af með aga og þol-
inmæði. Nú er síðasti engillinn úr
minni bernsku á Tindum fallinn frá.
Mikill maður. En kvíð þú eigi frændi
því amma og afi munu taka vel á
móti þér. Hvíl í friði.
Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur hið sama;
en orðstírr deyr aldregi
hveim sem góðan getur.
(Úr Hávamálum.)
Guð blessi þig, elsku frændi.
Sigurjón og Berglind,
Kristín Rós og Ingibjörn,
Lárus Gunnar.
Elsku frændi, takk fyrir ánægju-
legar og skemmtilegar stundir.
Legg ég nú bæði líf og önd,
ljúfi Jesús, í þína hönd,
síðast þegar ég sofna fer
sitja guðs englar yfir mér.
(Hallgrímur Pétursson.)
Við vitum að þér líður vel hjá
Guði.
Ágústa Rós og Margrét Ýr.
Sigurjón Lárusson bóndi á Tind-
um er látinn langt um aldur fram.
Þar er horfinn af heimi mætur mað-
ur.
Sigurjón fæddist á Hamri í Svína-
vatnshreppi 6. september 1937. For-
eldrar hans voru Kristín Sigurjóns-
dóttir og Lárus Sigurðsson. Þau
hjón voru bæði greindar- og atorku-
fólk. Fjölskyldan flutti að Tindum
1944 en þar höfðu áður búið foreldr-
ar Kristínar og þar var hún alin upp.
Sigurjón var elsta barn þeirra hjóna,
næstur var Gunnar og yngst Gunn-
hildur. Fljótlega eftir að þau komu
að Tindum varð fjölskyldan fyrir
þeirri þungu sorg að missa Gunnar
en hann var mjög efnilegt barn og
hvers manns hugljúfi.
Sigurjón ólst upp á Tindum og þar
kynntumst við fyrst en ég kom þang-
að 10 ára gamall á barnaskóla. Þá
var farskóli í sveitinni. Farskólinn
var starfræktur þannig að kennar-
inn, Kristján Sigurðsson á Brúsa-
stöðum í Vatnsdal, kenndi einn mán-
uð í Vatnsdalnum og síðan næsta
mánuð í Svínavatnshreppi og svo
koll af kolli. Við fengum samtals
þriggja mánaða kennslu á vetri og
síðan einhverja tilsögn á heimilum
okkar þá mánuði sem ekki var skóli.
Kennslan fór fram á bæjunum á víxl,
nemendur voru 10-15 og öllum kennt
saman. Þetta var býsna gott fyrir-
komulag og Kristján var frábær
kennari. Góð var vistin á Tindum og
bæjarbragur glaðvær.
Við Sigurjón vorum jafnaldrar og
tókst þegar með okkur góður kunn-
ingsskapur og síðar vinátta. Sigur-
jón átti mjög létt með nám var enda
bæði næmur og samviskusamur.
Sigurjón var búfræðingur frá Hólum
og að því námi loknu fór hann að búa
með foreldrum sínum á Tindum. Þar
var búið stórt, enda jörðin góð til bú-
skapar og bætt stöðugt að ræktun og
húsakosti.
Lárus átti mikinn fjölda hrossa og
safnaði litum. Mun hann hafa um
skeið átt hross með öllum þeim litum
er íslensk hross prýða. Ennþá er
Tindastóðið litskrúðugt.
Lárus lést árið 1983. Sigurjón bjó
þá áfram með móður sinni uns hún
lést árið 1992.
Sigurjón valdist til mannaforráða
í sveitinni okkar. Hann átti sæti í
hreppsnefnd og var oddviti hennar
1978-1994 eða 16 ár.
Hluta af þessu skeiði voru miklir
átakatímar í sveitinni. Menn greindi
á með hverjum hætti Blanda skyldi
virkjuð. Sigurjón var í forystu okkar
sem vildum haga virkjun þannig að
sem minnst gróðurlendi færi undir
miðlunarlón. Samkvæmt þeirri
virkjunartilhögun sem við aðhyllt-
umst hefði verið unnt að bjarga
þriðjungi þess gróðurlendis sem fór
undir lónið.
Sigurjón var mjög hygginn foringi
enda maðurinn stálgreindur. Hann
hélt vel saman liði sínu. Þó fór svo að
við urðum að láta í minni pokann og
Blanda var virkjuð þannig að 60 km²
af algrónu landi var sökkt. Það er
mesta inngrip í íslenska náttúru af
mannavöldum í einni framkvæmd.
Sigurjón var oddviti sveitar sinnar
á byggingartíma virkjunarinnar og á
fyrstu rekstrarárum hennar og fórst
það mjög farsællega úr hendi. Hann
var útsjónarsamur og vakti yfir hag
sveitarinnar. Ávann hann sér virð-
ingu andstæðinga jafnt sem sam-
herja fyrir glöggskyggni og áræði.
Sigurjón var framsóknarmaður og
reyndist mér hollur ráðgjafi á þeim
vettvangi.
Sigurjón var góður bóndi og elju-
samur þrátt fyrir það að á hann
bættust störf utan heimilis. Eftir að
Kristín lést bjó Sigurjón oft fáliðað-
ur og fækkaði bústofni. Árið 1999
varð Sigurjón fyrir alvarlegu hjarta-
áfalli. Var lengi tvísýnt um líf hans
en með aðstoð snjallra lækna og
góðri hjúkrun komst hann til heilsu á
ný. Hann hætti búskap og flutti til
Blönduóss þar sem hann bjó síðustu
tvö árin. Sigurjón fékk annað áfall og
lést 30. nóvember.
Ég kveð þennan góða vin og sam-
herja með miklum söknuði og virð-
ingu. Með Sigurjóni er genginn gáf-
aður afbragðsmaður sem vann
samfélagi sínu mikið gagn og sleit
sér út fyrir sveitunga sína. Um hann
lifa einungis góðar minningar.
Páll Pétursson.
Svo lengi sem ég man hef ég þekkt
Sigurjón Lárusson á Tindum. Bæ-
irnir okkar standast á, Svínavatnið
speglar Langadalsfjöllin og Tinda-
bæinn, í sínu snemmgróna túni, sem
blasir við af hlaðinu heima.
Fyrst man ég Sigurjón, óljóst þó,
þegar hann var í barnaskóla heima á
Mosfelli. Sennilega hefur hann ekki
verið pörupiltur. Ég sé í huga mér,
dulan og hugsandi dreng, sem hefur
ekki stokkið upp á nef sér við smá-
muni, heldur hugsað sitt ráð. Seinna
kom líka í ljós að maðurinn var
traustur vel og lét lítt stjórnast af
tískusveiflum og tilgerð. Þessi
drengur ólst upp við bjargálna kjör,
nam fræði sín auðveldlega, bæði í
skóla lífsins og þeim skóla sem þá
tíðkaðist að bændasynir stunduðu.
Sýndi þar frábæran námsárangur,
sem engum kom á óvart.
Sigurjón gerðist bóndi á Tindum
og góður þegn sinnar sveitar, þar
sem hann var kosinn til að stýra
sveitarstjórn til margra ára, ásamt
fleiru sem þar til féll, í störfum fyrir
samfélagið. Og árin liðu, Sigurjón á
Tindum mun ekki oft á ævinni hafa
flækt sig í fljótfærnislegum ákvörð-
unum og kemur þá í huga minn að
stundum fannst mér hann seinn til.
Ekki skal hér dregin dul á að ég var
ekki alltaf ánægð við nágranna minn
og lét hann heyra af því í hreinskilnu
spjalli. Hann haggaðist ekki oft og
næst þegar við hittumst var allt sem
áður. Tilfellið var, vináttan þróaðist
eftir því sem árin liðu. Það var eitt-
hvað svo auðvelt að finnast maður
vera vinur hans, þó sitthvað bæri á
milli í skoðunum. Að sjálfsögðu hafði
hann alltaf vinninginn í samskiptum
okkar, þó rólega færi. Það var aðeins
eitt sem ég gat og gerði, en það var
að vera búin að rifja heyið okkar á
morgnana áður en hann kom á kreik.
Þá skemmti ég mér við að gera hon-
um upp orðin, en trúlega hefur hon-
um staðið alveg á sama. Það þurfti
enginn og allra síst ég að kenna hon-
um að búa. Hann hafði til að bera
þau hyggindi sem í hag koma.
Við urðum samherjar í Blöndu-
málinu. Málinu sem rismest hefur
orðið í okkar sveit, um mína daga að
minnsta kosti. Í því máli sýndi hann
hyggjuvit, framsýni og staðfestu.
Hann leiddi hópinn okkar og þá
fundu menn til verulegrar sam-
kenndar, samkenndar sem gott er að
eiga í muna sínum. Á hverju sem
gekk varð honum ekki haggað né
snúið. Hann var ekki hentifáni.
Þessi kveðja kemur til þín Sigur-
jón frá grasrót sveitarinnar okkar og
sú kveðja mun fylgja þér með þökk
um ókunna vegu.
Sigurjón var höfðingi heim að
sækja, stórveitull og gaman er nú að
minnast atvika sem lýsa því. Oft bar
það við að hópur ríðandi fólks átti
leið hjá Tindum. Var það og er nán-
ast venja að koma við og hafa hesta-
skipti í réttinni. Oft man ég að þá
kom maður gangandi niður túnið og
auðvitað var erindið að veita og
bjóða gestum heim. Það urðu
skemmtilegar stundir sem ljúft og
skylt er að þakka. Hann veitti líka af
öðrum toga, var greindur, fróður,
hafið góða frásagnargáfu og frábært
minni, kunni mikið af liðnum atburð-
um og skemmtisögum að segja. Það
er skaði að hann skyldi ekki skrifa
meira en hann gerði af því efni, svo
ritfær sem hann var.
Á góðum stundum söngs og gleði
var Sigurjón aufúsugestur. Hann
var vel tónvís og söngmaður ágætur.
Hann lyfti glasi í góðum hópi og nú
þessa daga, síðan ég heyrði látið
hans, hljómar í huga mínum:
Í suðri reis máninn og sveif yfir tindum,
er sólin var horfin við bládjúpsins rönd,
þ.e. Seljadalsrósin. Þetta fallega
lag tók hann gjarnan og fór vel með.
Þetta lag og fleiri sungum við síðast
nokkur saman á réttardagskvöldið í
fyrra.
En nú er það liðið og lítur ei við
þó löngun til þess muni vaka.
Sigurjón, hafðu þökk fyrir að hafa
verið þú sjálfur.
Systur hans Gunnhildi og öðrum
aðstandendum er vottuð innileg
samúð.
Fyrir hönd nokkurra sveitunga,
Bryndís Júlíusdóttir.
SIGURJÓN
LÁRUSSON
✝ Bergþóra Jóns-dóttir var fædd.
21. desember 1908.
Hún lést á Dvalar-
heimilinu Lundi á
Hellu 30. nóvember
síðastliðinn. For-
eldrar hennar voru
Jón Jónsson, ættað-
ur frá Háarima í
Þykkvabæ, og Guð-
rún Kristjánsdóttir,
ættuð frá Borgar-
túni í Þykkvabæ.
Foreldrar Bergþóru
bjuggu allan sinn
búskap á Skinnum í
Þykkvabæ og eignuðust þrjár
dætur, Pálínu Kristínu, Berg-
þóru og Kristjönu Guðbjörgu.
Auk þess ólu þau upp Svövu Guð-
mundsdóttur og
dóttur hennar Sonju
Huld Ólafsdóttur.
Bergþóra dvaldi
stærstan hluta ævi
sinnar í Þykkvabæ,
bjó þar með foreldr-
um sínum, systrum
og maka Pálínu,
Sigurjóni Guðlaugs-
syni. Dóttir Sigur-
jóns og Pálínu er
Bára Rebekka. Síð-
ustu árin dvaldi
Bergþóra fyrst á
heimili Sonju og síð-
an á Dvalarheim-
ilinu Lundi á Hellu.
Útför Bergþóru fer fram frá
Hábæjarkirkju í Þykkvabæ í dag
og hefst athöfnin klukkan 14.
Elsku Bagga mín, mig langar með
þessum línum að þakka þér fyrir allt
sem þú varst okkur og allt sem þú
gerðir fyrir okkur. Þú lifðir lengi,
miklu lengur en þú kærðir þig um,
hefðir orðið níutíuogþriggja ára
núna 21. desember. Þú hafðir fyrir
löngu undirbúið brottför þína úr
þessum heimi, náttkjóllinn klár og
aurar inná bók til að gefa fólkinu
kaffi. Það var ekki af neinni drama-
tík sem þú ræddir um þetta heldur í
glettnistóni þó svo að við vissum að
alvaran byggi að baki.
En svona varst þú, hugsaðir fyrir
öllu og vildir ekki að neinn hefði fyrir
þér, þó svo að þú værir tilbúin að
leggja allt það af mörkum sem þú
áttir. Þú varst yndisleg manneskja.
Nú veit ég að þú sussar og hlærð því
hæverskan var þitt aðalsmerki.
Það var svo skrítið að þótt þú vær-
ir alin upp í sveit og hefðir nánast al-
ið allan þinn aldur á sama bænum, þá
varst þú ótrúlega víðsýn, spjallaðir
við okkur sem börn, unglinga og full-
orðið fólk um allt það sem á daga
okkar dreif og aldrei nokkurn tím-
ann vandaðir þú um við okkur. Fötl-
un þín gerði að verkum að þú varst
mikið inni við og komst ekki um
nema við hækju. En þú hafðir svo
gaman af allri handavinnu og varst
þakklát fyrir að geta gert eitthvað í
höndunum. Þar voru afköstin ekki
lítil. Við systkinin áttum alltaf nóg af
prjónasokkum, vettlingum og peys-
um og seinna meir nutu börnin okk-
ar góðs af eljusemi þinni. Mörg lista-
verkin liggja eftir þig, útsaumaðar
rennibrautir, stólar og myndir. Fyrir
hugskotsjónum mínum sé ég þig sitj-
andi með handavinnuna þína eða
hrærandi í pottum við olíueldavélina
á Skinnum. Farðu í friði, elsku besta,
og hafðu bestu þakkir fyrir allt. Ég
veit að þú átt góða heimkomu.
Þorbjörg Gísladóttir og
fjölskylda.
BERGÞÓRA
JÓNSDÓTTIR