Morgunblaðið - 08.12.2001, Blaðsíða 53
MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 8. DESEMBER 2001 53
✝ GuðmundurBjarnason fædd-
ist að Litla-Nesi í
Múlasveit í Barða-
strandarsýslu 6. jan-
úar 1917. Hann lést á
St. Fransiskusspítal-
anum í Stykkishólmi
2. desember síðast-
liðinn. Foreldrar
hans voru Bjarni
Magnússon frá Sauð-
húsum í Laxárdal,
bóndi í Litla-Nesi og
Fagrahvammi í Búð-
ardal, og Sólveig
Ólafía Árnadóttir frá
Stað í Reykhólahreppi. Guðmund-
ur var elstur af alsystkinum sínum
en þau voru alls átta sem náðu
fullorðinsaldri og eru þrjú þeirra
á lífi í dag. Bjarni átti fyrir þrjár
dætur og eru þær allar látnar.
Sólveig átti einn son áður og er
hann látinn. Hinn 31. okt. 1941
giftist Guðmundur Herdísi Torfa-
dóttur, f. 10.6. 1921, d. 16.12.
2000. Foreldrar hennar voru
Torfi Illugason Hjaltalín, bóndi og
sjómaður á Garðsenda í Eyrar-
sveit, og Ingibjörg Finnsdóttir frá
Fjarðarhorni í Helgafellssveit.
Guðmundur og Herdís bjuggu alla
sína búskapartíð í
Stykkishólmi. Þau
eignuðust fjögur
börn: 1) Bragi vél-
stjóri, f. 25.4. 1942,
kona hans er Sigríð-
ur Bergþóra Guð-
mundsdóttir, f. 27.9.
1943. Þau eiga fjög-
ur börn og níu
barnabörn á lífi. 2)
Páll skipstjóri, f.
14.1. 1944, kona
hans er Ólöf Þórey
Ellertsdóttir, f. 22.1.
1946. Þau eiga þrjú
börn og sjö barna-
börn. 3) Bára Laufey, starfstúlka
á Dvalarheimili aldraða í Borgar-
nesi, f. 21.9. 1948, maki hennar er
Guðjón B. Karlsson, f. 30.10. 1938.
Þau eiga tvö börn og tvö barna-
börn. 4) Áslaug Sólveig matráðs-
kona, f. 3.9. 1955, maki hennar er
Halldór Kristján Jónsson. Þau
eiga fimm börn og tvö barnabörn.
Guðmundur var vinnumaður í
Dalasýslu á yngri árum en eftir að
hann flutti í Stykkishólm stundaði
hann sjómennsku.
Útför Guðmundar fer fram frá
Stykkishólmskirkju í dag og hefst
afhöfnin klukkan 14.
Stórt skarð er höggvið í hjarta
okkar systra. Amma kvaddi okkur
fyrir tæpu ári og nú þú, elsku afi.
Þetta skarð verður aldrei fyllt. Eitt
getum við þó hlýjað okkur við en það
eru allar góðu minningarnar um þær
stundir sem við áttum með ykkur.
Margt var brallað með afa og sér-
staklega þegar við vorum í hjólhýs-
inu, sem hann og amma voru með í
Álftafirðinum. Alltaf var eitthvað
verið að sýsla, ná í vatn, athuga netin,
byggja brýr, tæma kamarinn og laga
veginn. Aldrei féll þér verk úr hendi
og vorum við ávallt í humátt á eftir.
Erfitt er að hugsa til þess að húsið
á Víkurgötu standi tómt og enginn
muni taka á móti okkur þegar við
komum í Hólminn en þið stóðuð
ávallt á tröppunum og tókuð á móti
okkur opnum örmum.
Þegar við systurnar sitjum hér
grátandi og rifjum upp stundirnar
með þér kemur upp í huga okkar það
sem þú varst vanur að segja við okk-
ur þegar ágreiningur varð á milli
okkar og tár féllu. „Ekki gráta, stelp-
ur, þið skemmið á ykkur andlitið.“
Elsku afi, nú vitum við að þér líður
vel því að þú ert aftur kominn í faðm
ömmu sem þú saknaðir svo sárt. Við
söknum ykkar beggja mjög mikið.
Hvíl í friði, elsku afi.
Halldóra, Linda Björk
og Anna Rún.
Félagi minn og vinur Guðmundur
Bjarnason vélstjóri er horfinn af
sviði mannlífsins. Hann var farsæll
þegn samfélagsins í Hólminum. And-
lát hans kom mér ekki á óvart. Und-
anfarin ár hafði hann barist við ill-
vígan sjúkdóm og þá sýnt óvenju-
legan kjark og þrautseigju. En nú er
Guðmundur allur.
Ég átti þess kost að kynnast hon-
um í sameiginlegum útgerðarfélög-
um okkar. Vinskapur okkar efldist í
gegnum útgerðina. Stundum deild-
um við um ýmislegt í framgangi þess-
ara félaga sem við vorum stofnfélag-
ar að en ávallt reyndist hann
traustur á þann hátt að standa alltaf
við gefin loforð.
Hann vann af alhug að öllum þeim
verkefnum sem hann kom nærri.
Þótt hann hefði litla skólagöngu til að
byggja á var lífsins skóli honum nota-
drjúgur. Ekki þurfti að efast um að
verk hans kæmu að gagni.
Ég minnist alltaf með þökk og
virðingu kynna minna af Guðmundi
og hans ágætu konu Herdísi, sem
andaðist fyrir stuttu. Þau reyndust
samhent og margar góðar stundir
átti ég með þeim á heimili þeirra.
Fyrir nokkrum dögum heimsótti ég
Guðmund á sjúkrahúsið í Stykkis-
hólmi í síðasta sinn. Handtak okkar
var einlægt. Við fundum að tryggð
okkar hafði staðist eldraun veraldar-
vafstursins.
Með þessum fáu línum vil ég þakka
Guðmundi samfylgdina og bið honum
allrar blessunar á nýjum vettvangi.
Ég veit að hann á þar vinum að
fagna. Góði vinur, hann sem öllu ræð-
ur veri með þér og styrki.
Árni Helgason
Stykkishólmi.
Hann kom inn í líf okkar fyrirvara-
laust. Þarna stóð hann á tröppunum
og knúði á dyr að gömlum sið. „Vel-
komin,“ sagði hann. Kynni okkar af
Guðmundi voru stutt en þau voru
góð. Þegar við sáum hann fyrst var
hann í raun orðinn fársjúkur maður.
Það leyndi sér ekki. Sjá mátti af
myndum á heimili hans að fjölskyld-
an var stór, mörg börn og barnabörn.
Tíðræddast varð honum um kon-
una sína, sem kvatt hafði þennan
heim fyrir fáum mánuðum. „Það var
ég sem átti að fara,“ sagði hann,
„ekki hún“. Eitt sinn fórum við með
honum að leiði hennar. Þvílík um-
hyggja sem hann sýndi. Hún var
ósvikin.
Það var aðdáunarvert að fylgjast
með dugnaðinum í honum. Hann
kvartaði ekki í okkar eyru en hann
hafði oft orð á því að hann vildi „fá að
fara“. En andlitssvipurinn var
hreinn. Úr honum skein hlýja og
glettni.
Við erum þakklát fyrir kynnin, þó
stutt væru.
Hvíldu í friði, vinur.
Jónína og Böðvar.
GUÐMUNDUR
BJARNASON
✝ Fjóla Pálsdóttirfæddist 24. maí
1914 í Kollugerði í
Glæsibæjarhreppi.
Hún lést á Hjúkrun-
arheimilinu Seli
sunnudaginn 2. des-
ember síðastliðinn.
Fjóla var dóttir
hjónanna Páls Bene-
dikssonar, f. 4. nóv
1885, d. 15 sept 1961,
og Önnu Maríu Krist-
jánsdóttur, f. 22. júlí
1893, d. 10. mars
1990. Hún var elst
átta systkina, tvö dóu
í bernsku, Baldur, f. 1919 og
Helga, f. 1920. Upp komust Krist-
ján, f. 8. mars 1918, d. 30. nóv.
1995, Helga Margrét, f. 4. des.
1923, Friðjón, f. 12. apríl 1925,
Arngrímur, f. 27. feb. 1930, og
Eggert f. 10. okt. 1931. Fjóla gift-
ist 25. okt. 1941 Gunnari Krist-
jánssyni bónda á Dagverðareyri,
f. 20. júlí 1912, d. 17. nóv. 1993.
Þau bjuggu á Dagverðareyri við
Eyjafjörð allan sinn búskap. Börn
þeirra eru 1) Oddur, f. 4. jan. 1943,
maki Gígja Snædal, f. 9. júlí 1947.
Dætur þeirra eru: Fríða, f. 7. mars
1972, maki Indriði
Þröstur Gunnlaugs-
son; Rannveig, f. 15.
des 1973, sambýlis-
maður Svanlaugur
Jónasson; Jóhanna
María, f. 8. maí 1976,
maki Marteinn Þór
Magnþórsson, þau
eru skilin, dætur
þeirra eru Bergrós
Vala og Oddrún
Inga; og Þórgunnur,
f. 10. apríl 1981. 2)
Seselía María, f. 29.
nóv. 1947, maki Jó-
hannes Hólm Þeng-
ilsson, f. 14. des. 1941. Börn þeirra
eru: Sigurbjörg, f. 13. okt. 1966,
maki Gunnar Haukur Gunnars-
son, börn þeirra eru Kristján og
Elín María; Ólöf María, f. 20. feb.
1968, sambýlismaður Helgi Jakob
Helgason, þau eiga tvö börn, Mar-
íu Katrínu og óskírðan dreng;
Gunnar, f. 20. sept. 1978; og Fjóla
Kristín, f. 3. jan. 1980.
Útför Fjólu fer fram frá Möðru-
vallakirku í Hörgárdal í dag og
hefst athöfnin klukkan 14. Jarð-
sett verður í Glæsibæjarkirkju-
garði.
Hin langa þraut er liðin,
nú loksins hlauztu friðinn,
og allt er orðið rótt,
nú sæll er sigur unninn,
og sólin björt upp runnin
á bak við dimma dauðans nótt.
Fyrst sigur sá er fenginn,
fyrst sorgar þraut er gengin,
hvað getur grætt oss þá?
Oss þykir þungt að skilja,
en það er Guðs að vilja,
og gott er allt, sem Guði’ er frá.
(Vald. Briem.)
Elsku amma.
Fyrsti sunnudagur í aðventu rann
upp bjartur og fagur. Þann dag
kvöddum við þig, elsku amma. Það
er okkur mikil huggun að vita af
ykkur afa saman nú á aðventunni og
jólunum, því sá tími var ykkur báð-
um afar kær og eigum við barna-
börnin miklar og góðar minningar
frá þeim tíma. Þú lagðir mikinn
metnað í að heimilið liti alltaf vel út
og jólin voru þar engin undantekn-
ing. Það var steikt laufabrauð heila
helgi og bakaðar margar smáköku-
sortir sem entust jafnvel fram á
næstu jól. Saumaskapurinn lék í
höndunum á þér, það voru ekki ófáir
náttkjólarnir og náttfötin sem þú
saumaðir á okkur og það var alltaf
mikið tilhlökkunarefni að fara í nýju
náttfötin á jólanótt. Þú hugsaðir líka
fyrir því að dúkkurnar og bangs-
arnir okkar færu ekki í jólaköttinn.
Það má segja að í gamla húsinu
ykkar á Dagverðareyri höfum við öll
átt okkar annað heimili og aldrei
fannst okkur við vera gestir þar.
Húsið ykkar var líka heill ævintýra-
heimur, þar bjuggu t.d. álfar sem
stundum settu góðgæti í skó
barnanna sem fóru snemma að sofa.
Ýmislegt var brallað og alltaf tókst
þú virkan þátt í þessu öllu, aldrei
heyrðum við þig segja að þú hefðir
ekki tíma fyrir okkur. Þú hafðir ein-
stakt lag á að fá okkur til að vinna
ýmis verk fyrir þig og launaðir það
með hrósi og góðgæti. Eftir að við
uxum úr grasi og við fórum sjálf að
búa fylgdist þú alltaf náið með okk-
ur og tókst virkan þátt í okkar dag-
lega lífi. Alltaf barst þú velferð okk-
ar fyrir brjósti og varst dugleg að
gefa okkur góð ráð. Þú varst sterk-
ur persónuleiki og hafðir skoðanir á
öllu. Þú varst heldur aldrei hrædd
við að láta skoðanir þínar í ljós. Við
munu minnast þín sem ákaflega
röggsamrar konu. Allir sem komu
til þín að Dagverðareyri munu
minnast þín fyrir höfðinglegar mót-
tökur. Það var sama hvernig stóð á,
alltaf varst þú búin að töfra fram
veisluborð. Allur matur bragðaðist
eins og veislumatur og það eru ekki
ófáar uppskriftirnar sem við fengum
hjá þér. Þú fylgdist alltaf vel með
öllu í kringum þig og þótt þú værir
mikið veik undir það síðasta hélstu
því áfram. Þú sýndir mikið æðru-
leysi í veikindum þínum og tókst
hlutunum eins og þeir voru. Eins
komu þessir eignleikar þínir vel í
ljós þegar þú sinntir afa í hans veik-
indum.
Það voru mikil forréttindi að fá að
alast upp með ykkur afa og taka
þátt í ykkar daglega lífi. Að því
munum við alltaf búa. Það að sísla í
garðinum með þér og afa og hlusta á
frásagnir ykkar af fólki og liðnum
tímum hefur ekki síður átt þátt í því
að mennta okkur, en það sem við
höfum lært á skólabekk. Þú kunnir
að segja frá og frásagnir þínar gáfu
okkur lifandi mynd af fyrri tímum.
Við eigum öll mjög sterkar rætur
heima á Dagverðareyri og hluti af
þessum sterku rótum eru án efa
saga fjölskyldunnar sem býr þar í
stokkum og steinum og þið afi miðl-
uðuð okkur svo ríkulega af.
Þú kenndir okkur öllum flestar
þær bænir sem við kunnum enn
þann dag í dag. Við minnumst þín
þar sem þú situr hjá okkur á rúm-
stokknum, heldur í hendurnar á
okkur, ferð með bænirnar og biður
englana um að passa okkur. Fyrir
ofan rúmið hangir myndin „Trú, von
og kærleikur“, englarnir eru allt um
kring og við förum að sofa í örugg-
um höndum. Við kveðjum þig með
fallegri bæn sem þú kenndir okkur
og biðjum englana um að passa þig.
Vertu yfir og allt um kring
með eilífri blessun þinni,
sitji Guðs englar saman í hring
sænginni yfir minni.
(Sig. Jónsson frá Presthólum.)
Hvíl í friði.
Þín barnabörn,
Sigurbjörg, Ólöf María, Fríða,
Rannveig, Jóhanna María,
Gunnar, Fjóla Kristín
og Þórgunnur.
Eigum við að koma í heimsókn til
Fjólu á Dagverðareyri? Þannig
spurði ég oft börnin mín á árunum
sem við bjuggum á Möðruvöllum.
Og svarið vissi ég fyrirfram. Þau
elskuðu að fara í heimsókn til Fjólu.
Það var alltaf skemmtilegt. Gamla
húsið og skógurinn í garðinum stóra
var líkt og í ævintýrunum. Og leik-
föngin í litla herberginu uppi á lofti
voru miklu meira spennandi en dót-
ið heima. Stofan hennar var svo fín
og falleg og heitt súkkulaðið bragð-
aðist svo dásamlega vel úr postulíns-
bollunum hennar. Sjálf var ég eins
og börnin þegar ég kom til Fjólu,
svolítið spennt og hátíðleg. Fjóla var
aldrei með neina uppgerð og kom
nákvæmlega til dyranna eins og hún
var klædd. Hún ræddi menn og mál-
efni af hispursleysi og hafði skoð-
anir á öllum hlutum. Hún var ein-
staklega mikill vinur vina sinna og
ég var stolt af því að mega teljast í
þeirra hópi. Þótt aldursmunurinn á
okkur væri yfir þrjátíu ár hvarf
hann eins og dögg fyrir sólu þegar
við ræddum málin. Oft töluðum við
okkur heitar og hlógum dátt og inni-
lega eða fussuðum í vandlætingu yf-
ir einhverju sem okkur mislíkaði.
Börnin dunduðu sér glöð og ánægð
meðan við fórum hamförum í sam-
ræðunum í eldhúsinu. Og allt sem
Fjóla bar fram með kaffinu smakk-
aðist svo dásamlega vel. Ég gætti
þess vandlega að koma til hennar á
aðventunni til þess að bragða á jóla-
bakkelsinu sem var hvergi betra. En
sjálf var hún allra best með svolítið
hrjúfa röddina og hvassan glampa í
dökkum augunum. Þótt liðin séu
nokkur ár síðan við spjölluðum síð-
ast saman í eldhúsinu hennar á Dag-
verðareyri sé ég hana ljóslifandi fyr-
ir mér einmitt þar í miðri orðræðu
sposka á svip. Þær stundir geymast
í hugskoti minninganna.
Fyrir fáum árum flutti Fjóla sig
um set til Akureyrar, fyrst í Kjarna-
lund, en eftir að heilsunni tók að
hraka dvaldist hún á hjúkrunar-
heimilinu Seli þar sem einstaklega
notalegt var að koma í heimsókn.
Þar hitti ég hana síðast nú í sumar
og var andi hennar óbugaður þótt
hún gæti varla reist höfuð frá
kodda. Engu var gleymt og málin
rædd af sama húmor og hispursleysi
og í eldhúsinu forðum. Ég minnist
Fjólu nú við ferðalok með þakklæti í
huga fyrir einlæga vináttu og tryggð
allt frá okkar fyrstu kynnum sum-
arið 1989. Ég minnist líka elskulegs
eiginmanns hennar, Gunnars, sem
lést árið 1993. Vinátta hans var söm
og hennar, traust og gefandi, eins og
hann sjálfur. Blessuð sé minning
hans.
Hugurinn leitar norður í sveitina
góðu í Eyjafirði þar sem býlið Dag-
verðareyri stendur og ber ábúend-
um sínum fagurt vitni. Þar er heim
að líta eins og að sænskum herra-
garði í skáldsögu eftir Selmu Lag-
erlöf, hvítmálaðar byggingar, fagrir
trjágarðar og skógurinn, sem Fjóla
og Gunnar hófu að rækta af miklum
stórhug fyrir hálfri öld. Nú hafa þau
bæði kvatt eftir farsælt dagsverk,
en áfram heldur lífið og skógurinn
vex og dafnar í skjóli afkomenda
þeirra. Börnum Fjólu og fjölskyld-
um þeirra sendi ég innilegar sam-
úðarkveðjur, einnig systkinum
hennar og öðrum ástvinum. Guð
blessi minningu þeirra beggja, Fjólu
og Gunnars á Dagverðareyri.
Kristín Magnúsdóttir.
Nú er hún Fjóla mín dáin eftir
langt líf og mig langar að kveðja
með örfáum orðum. Það var sumarið
1978 að ég réðst sem kaupakona til
Fjólu og manns hennar Gunnars
Kristjánssonar sem látinn er fyrir
mörgum árum. Það var mikil gæfa
því þau voru heiðurshjón. Á því
heimili var allt rekið með mikilli
reisn og framsýni jafnt utan húss
sem innan en þar réð Fjóla ríkjum
eins og títt var í þá tíð.
Dýrmætt er og gott veganesti fyr-
ir ungt og lítið mótað fólk að kynn-
ast persónum eins og þeim hjónum
sem sannarlega voru prýdd miklum
mannkostum. Þau hjón voru heil-
steypt, fylgin sér, gjöful og framsýn.
Alla tíð tók Fjóla mér opnum örm-
um og fylgdist vel með mér og mín-
um alveg til hins síðasta. Frá henni
streymdi hlýja og væntumþykja.
Fjóla var sönn vinkona. Um leið og
ég þakka samfylgdina bið ég fyrir
bestu kveðjur til barna hennar á
Dagverðareyri og fjölskyldna
þeirra.
Ragna Eysteinsdóttir.
Ég kynntist Fjólu og fjölskyldu
fyrir um 30 árum og hafa þau kynni
verið mjög náin og góð. Fjólu sá ég
fyrst þegar hún kom heim til
mömmu og spurði eftir henni, en
hún var ekki heima. Leist mér strax
þannig á hana að hún væri mjög góð
kona. Fjóla kom aftur og náði þá tali
af mömmu. Var hún að bjóða henni
sveitastarf fyrir strákinn en hún
hafði frétt af því að hann langaði í
sveit. Þau kynni mín af fjölskyld-
unni á Dagverðareyri eru búin að
vera mjög góð. Varð ég, að því að
mér fannst, strax einn af fjölskyld-
unni. Ég var þar öllum stundum upp
frá því þegar ég átti frí í skólanum.
Síðan var ég þar nokkur ár sem
vetrarmaður. Leit ég á þau sem
mína aðra fjölskyldu kannski vegna
þess að ég var nýlega búinn að
missa föður minn snögglega.
Gunnar og Fjóla voru mér sem
bestu foreldrar upp frá því. Ég gat
alltaf átt von á góðum móttökum
þegar ég kom síðar í heimsókn. Það
var enginn svikinn af því að koma í
heimsókn til Fjólu, hún bar fram
kynstrin öll af brauði og var alltaf að
reyna að troða meiru í mann.
Nú stendur eftir minningin um
mjög gott fólk, þau Gunnar og
Fjólu, sem ég sakna mjög. Guð
blessi minningu þeirra. Bið ég guð
að styrkja þau Odd, Sesselju og fjöl-
skyldur þeirra í sorginni.
Páll Árdal.
FJÓLA
PÁLSDÓTTIR