Andvari - 01.01.1977, Síða 47
andvari
EGILL GR. THORARENSEN
45
„Já, heldurðu ekki, Sigurður Pálsson, að þeir fari allir beina leið til
helvítis, hann Egill Thór og þessir herrar?“
„Maðurinn minn hugsaði sig um andartak," sagði frú Stefanía, ,,en
mælti síðan: ,,Eg veit það ekki. En miskunn Guðs er óendanleg, Sigurð-
ur Einarsson."
Meðal starfsfólksins í fyrirtækjunum, sem Egill stjórnaði, var hann
vinsæll og því vinsælli sem menn þekktu hann betur. I félagsstarfinu tók
hann upp ýmsar nýjungar. Hann hélt deildarfundi eins og skemmtanir,
útvegaði þangað listamenn, veitti kaffi og sætar kökur og talaði um mál-
efni kaupfélagsins eins og faðir ræðir fjölskyldumál. Nokkrum sinnum
hringdi hann til mín og hað mig að verða skemmtikraftur hjá sér á deild-
arfundi, ekki sízt ef hann hafði sérstaklega boðið eiginkonum félags-
manna einhverrar deildarinnar. ,,Og hvað viltu að ég geri, Egill?“ spurði
ég. „Lestu upp úr einhverri bókinni þinni. Lestu upp úr Blindingsleik,
um stelpuna þína hana Birnu, hún er ágæt, ég er skotinn í henni.“ Stund-
um valdi hann manni ljóð. Einu sinni skipaði hann mér að lesa kvæðið
Skugga eftir Einar Benediktsson, urn gleðikonuna í Róm. Einar Benedikts-
son var greinilega uppáhaldsskáld hans, og það var engin furða, þeir voru
andlega náskyldir menn. Munurinn á þeirn sá, að Agli heppnaðist það
í framkvæmd, sem Einari heppnaðist í ljóði.
Ymsir efuðust um, að Egill væri í rauninni samvinnumaður. Hann
hafði verið kaupmaður og hlaut þar af leiðandi að vera einstaklingshyggju-
nraður. Eg held líka, að Egill hafi verið einstaklingshyggjumaður, en hjá
honum samrýmdist það auðveldlega samvinnuhugsjóninni, af því hann
hafði hæði skilning og mátt til að beita samvinnustefnunni fyrir vagn
sinna eigin hugsjóna, sem voru almenn hagsæld og að vinna stórvirki,
stærri en svo að einn maður orkaði þeim, en framkvæmanleg með vel
skipulögðu átaki fjöldasamtaka, sem lyti yfirstjórn rnikils foringja.
Það er athyglisvert, að Egill skyldi ekki vera kosinn í stjórn Sam-
bands íslenzkra samvinnufélaga (SÍS) fyrr en tveimur árum fyrir fráfall
sitt. Þá fyrst þótti „stigamaðurinn við brúna“ hæfur til þeirra metorða.
Samt hafði hann í meira en tvo áratugi verið viðurkenndur um land allt
sem einn snjallasti kaupfélagsstjóri landsins. Sumir töldu vafasaman pólitísk-
an ht hans orsökina að síðbúnum metorðum hans í SÍS, svo og vinfengi
hans við ýmsa heildsala og kaupsýslumenn einkaframtaksins í Reykjavík.