Andvari - 01.01.1977, Blaðsíða 103
PÁLL BJÖRNSSON:
Kennidómsins spegill
Kolbeinn Þorleifsson bjó til prentunar og ritaði inngang og eftirmála.
Allir íslendingar, sem komnir eru til vits og ára, vita, að „meistari Jón“
liefur um aldir verið talinn mestur allra prédikara á landi voru, og er jafnan
til hans jafnað, þegar um álirifamiklar prédikanir er rætt. Prédikanir hans og
sálmar Hallgríms Péturssonar hafa vaxið í vitund þjóðarinnar í svo ríkum mæli,
að jafnvcl frjálslyndum guðfræðingum leikur rétttrúnaður séra Llallgríms og
meistara Jóns á tungu, hvenær sem tala á til þjóðarsálarinnar. En þessir miklu
kennimenn áttu sér lærifeður sjálfir, og á þeirra tímum var jafnvel nokkuð
um stórskáld. Á tíma Hallgríms var meira að segja uppi stórskáld, sem orti
merkilegar rímur um Adam og Evu, Enok og Nóa. Það var séra Jón Magnús-
son í Laufási. En rit séra Jóns í Laufási voru of mikil að vöxtum, til þess að
unnt væri að prenta þau. Þess vegna eru þau flestum gleymd. Sama er að
segja um rit þeirra jafnaldranna séra Bjarna Gissurarsonar í Þingmúla og séra
Páls Björnssonar í Selárdal, sem eru mikil að vöxtum í handritum, en hafa
lítt verið prentuð. í ritsmíð þessari verður reynt að kynna lítt þekkt rit eftir
hinn síðastnefnda, en séra Páll í Selárdal var álitinn mestur allra innlendra
prédikara af samtímamönnum sínum.
I kirkjusögu Finns biskups Jónssonar segir frá því, að hinn ungi sveinn
Jón Vídalín hafi að loknu skólanámi í Skálholti dvalið til frekari þroska hjá
þremur merkum kennimönnum, séra Oddi Eyjólfssyni í Holti, séra Árna Þor-
varðarsyni á Þingvöllum og í eitt misseri hjá séra Páli Björnssyni í Selárdal.
Dvöl hans hjá þessum lærdómsmönnum hafði svo þroskavænleg áhrif á ungl-
inginn, að nítján ára gamall fékk hann prédikunarleyfi útgefið af Þórði
hiskupi Þorlákssyni 8. janúar 1685. Á þeim tíma var hinn ungi maður hjá
Oddi presti Eyjólfssyni í Holti undir Eyjafjöllum, og var leyfið miðað við
það, að Jón prédikaði í nágrenni séra Odds og undir eftirliti hans. Á þessum
árum varð Jón nefnilega að vinna fyrir sér á vertíðum í Vestmannaeyjum, og
er sagt, að hann hafi gert það í tvö ár. Þá hefur komið sér vel að nota tímann
til æfinga í prédikunarlistinni, sem Jón hefur þá verið búinn að læra, áður en
leyfið var veitt.