Menntamál - 01.10.1950, Qupperneq 12
154
MENNTAMÁL
verður ekki hóti réttari fyrir þá sök, að hann hefur
verið lögboðinn. Málið, og jafnframt breytingar á því,
er samkomulagsatriði milli þegnanna. Til þess að lagaboð
um breytingar á því hafi rétt á sér, þarf lagaboðið því
að eiga rætur í sterku aimenningsáliti. Mér er ekki kunn-
ugt um, að slíkt almenningsálit sé til í landinu. Ég hef
ekki orðið annars var hér á Norðurlandi en fólk teldi að-
eins norðlenzkan framburð eiga rétt á sér, en öfugt sjón-
armið hefur mér virzt ríkja annars staðar. Eðlilegt er,
að mönnum verði ljós þörfin á samræmdum framburði
og sérstöku ríkismáli yfirleitt í löndum, þar sem mállýzku-
munur er svo mikill, að fólk úr mismunandi landshlutum
getur ekki skilið hvert annað eða á að minnsta kosti erfitt
um það. En þá hefur yfirleitt ekki verið gripið til þess
að taka sitt lítið úr hverri mállýsku, heldur hefur ein
mállýzkan verið lögð til grundvallar. Ég hef gerzt hér
svo langorður um þetta atriði, af því að ég get hugsað
mér, að það verði til umræðu á næstunni, þegar stafsetn-
ingarmálin verða athuguð í heild, en varla verður þess
langt að bíða, að svo verði.
1 sambandi við þetta langar mig til að ræða annað mál,
þó að það komi ekki beinlínis við aðalefni fyrirlestrar-
ins. Ég hef orðið þess allmikið var, að ýmsum kennurum
finnst stafsetningin ekki nógu mikið samræmd, þ. e. að
innan núgildandi stafsetningar megi réttlæta mismunandi
rithátt á sama orði. Einnig heyrast raddir um það, að
löggilda ætti sérstakar orðmyndir, ef tvær eru til, t. d.
hef og hefi. Ég er algerlega andvígur slíkum löggildingar-
sjónarmiðum. Eins og stafsetningin er nú úr garði gerð,
þ. e. meðan upprunasjónarmið ræður jafnmiklu og það
gerir nú, hljóta alltaf að koma fram mismunandi skoðanir
um rithátt einstakra orða. Fræðin um uppruna orðanna
er og verður alltaf óörugg fræðigrein. Hún leitar, eins og
aðrar greinir vísindanna, sannleikans, en fræðimenn
geta í þeirri grein sem öðrum haft mismunandi hugmynd-