Skírnir - 01.01.1933, Side 218
212 Mustafa Kemal og Tyrkland hið nýja. [Skírnir
staka menn hafa að vísu safnað allmiklum jarðeignum, en
þær ganga sjaldan í arf til lengdar. Vesírarnir og ýmsir
aðrir æðstu embættismenn ríkisins rökuðu oft saman of
fjár, en örlög þeirra urðu oftast þau, að þeir féllu í ónáð,
voru sviptir eignum og oft lífinu með. Afkomendur þeirra
urðu svo að ganga út í lífið með tvær hendur tómar.
Stórverzlunin og yfirráð peningamálanna hefir jafnan verið
í höndum útlendra manna, þó þeir væru búsettir í ríkinu.
Tyrkir hafa heldur ekki haft titla eða nafnbætur, er
gengu í arf frá föður til sonar. Jafnvel hinar æðstu nafn-
bætur þeirra, »Pasha« og »Bey« hafa jafnan verið persónu-
legar, en ekki arfgengar eins og greifi eða barón meðal
vestrænna þjóða.
Af þessum trúarlegu og fjárhagslegu ástæðum hefir
aldrei myndazt nein höfðingjastétt í Tyrklandi. Þetta létti
Mustafa Kemal verkið, að breyta soldánsríkinu með mið-
aldasniðinu í nútíma þjóðveldi. Hann þurfi ekki að berjast
við volduga og þröngsýna klerkastétt, né auðuga og íhalds-
sama aðalsmenn eins og Pétur mikli varð að gera. Um
verkamannahreyfingar var ekki að tala. Tyrkir héldu sam-
an vegna trúar, og þjóðernis, og haturs á yfirgangi útlend-
inga, og þegar foringinn kom fram, þá reis þjóðin upp
einhuga og skipaði sér undir merki hans. Án hinnar út-
lendu kúgunar hefði starfsemi Mustafa Kemals verið ómögu-
Jeg. og þá hefði líklega setið enn soldán í Miklagarði.
En hvernig er þjóðveldi Tyrkja varið? Er það annað
en grímuklætt einveldi? Mustaía Kemal er ef til vill fylgj-
andi »cæsaristisku« kenningunni um að allt vald sé hjá þjóð-
inni, en af hagsmunalegum ástæðum feli hún einum manni
að fara með öll völdin um lengri eða skemmri tíma. Menn
hafa líkt honum við Napoleon að þessu leyti, en ef þetta
er rétt, þá líkist hann Napoleon, er hann gerðist fyrsti
konsúll, en ekki er hann lét gera sig að keisara. Mustafa
Kemal er forseti lýðveldis, að vísu óvenjulega voldugur,
en hann hefir aldrei kært sig um há laun, né ytri virð-
ingarmerki. Þegar hátíðir eru haldnar í Angóra, hrópar
fólkið: Lifi lýðveldið! Lifi þjóðarviljinn! Það hrópar ekki: