Jörð - 01.08.1933, Page 273
Jövð]
NÚTÍMAMENNINGIN
257
inn fjöldi manna, sem vissulega vinnur með Kristi að
þeirri menning, sem koma á, þó að þeir »fylgi honum
ekki« í þrengri merkingu þess orðtækis.
ER Nú langt liðið á það yfirlit »landafræðinnar«,
er ég nefni svo í þessu sambandi og hér verður veitt. Þó
verð ég, áður en ég skilst við það, að fara fáeinum orð-
um um þjóðlífið, sem fylgir nútímamenningunni.
Halldór Kiljan Laxness bregður upp lítilli en snjallri
mynd í fyrrnefndri »Iðunnar«-grein, er hann telur ótrú-
lega gott tákn þjóðlífsins í Bandjaríkjunum. Hann er á
gangi í baðstað á Kyrrahafsströnd með Upton Sinclair,
sem grein Kiljans er helguð. Er þar hvert húsið við ann-
að, þar sem alls konar fáránlegar skemmtanir og óheil-
brigð ærsl fara fram, en hégómleg eða svikin undur sýnd
fólki, sem leitar hér hressingar eftir ítrustu spennu allra
tauga 50 vikna ársins ár eftir ár á vegum ævistarfsins
í ríki hinna fullkomnu aðferða til að safna fé og hinna
fullkomnu tækja til aö berast á. Mynd þessi er ekki ein-
ungis gott tákn þjóðlífsins í Bandaríkjunum — ég hygg
sem sé, að mikið sé hæft í þeirri umsögn Kiljans, er
hann styður við Sinclair, — heldur er hún, að því er ég
hygg> jafnframt nothæft tákn þjóðlífs nútímamenning-
arinnar í svo að segja hvaða landi hennar sem er — á
misjöfnum stigum auðvitað; sumstaðar er líka harð-
stjórn i landi, sem heldur að nokkuru í hemilinn á ærsla-
tilhneigingunni, sem vaðið hefir eins og logi yfir akur
um öll lönd síðan um ófrið.
Heimili eru unnvörpum yfirgefin, að kalla. Að vísu
sofa menn þar oftast og matast stundum (en þó fremur
á veitingahúsum). En kvöldunum eyða menn fram á nótt
í kaffihúsum, kvikmyndahúsum, leikhúsum, sönghöllum,
félagsfundum, gildaskálum og skemmtistöðum þvílíkum,
sem áðan var vikið að, — að ekki séu nefndir lakari
staðir, ýmiskonar, sem munu eiga hraðvaxandi aðsókn
að fagna. — Hjónaböndum fækkar unnvörpum, og
versna þau líka, ef marka má af öllum skilnaðarmála-
17