Íslenskt mál og almenn málfræði - 13.07.1981, Side 106
HELGI GUÐMUNDSSON
Sko
i
Orðið sko er tíðheyrt en fáséð. Notkun þess er ærið misjöfn, því að
sumir segja sjaldan eða aldrei sko, en aðrir furðulega oft. Fáir skrifa
sko, en þó má stundum sjá það á prenti. Samkvæmt orðabók Sigfúsar
Blöndals (1920-1924:733) er sko í senn upphrópun og boðháttur af
sögninni að skoða. Þar segir: „sko .. . interj. se skoða,“ og „skoða . ..
imper. sko (for: skoðaðu) (med acc. el. abs.): sko manninn! se det Men-
neske!; sko, þarna er hann, se, der er han! Undertiden bruges det som
Udraab: se engang, og udannede Mennesker bruger det meget hyppigt,
som mange Tyskere bruger halt!; sko til, der ser du, der kan du se; sko
til (se engang), þetta gat hann!“
Það er ekki ljóst hversu gamalt sko er. En orð sem endaði á -o hefði
verið næsta einstakt í málinu fyrr en kom fram um 1600, eða þar um
bil. Það er við hljóðbreytinguna va>vo!>vo að svó>so, tvo, þvo koma
til sögunnar. Ef til vill er sko yngra en sú hljóðbreyting, en það verður
ekki sannað. En sko er að minnsta kosti til á 18. öld, því að það kemur
fyrir í orðabók Jóns Ólafssonar úr Grunnavík (1705-1779) (AM 433
fol.: s.v. skoda): „Sko, sko, Ecce! Ecce! pro Skoda! skoda! vox pueris
et plebi in usu, abbreviaté pro skoda! skoda!“
Jón Ólafsson á 18. öld og Sigfús Blöndal á 20. öld eru sammála um
að sko sé hálfgert kvikindisorð. Það hefur mörgum fundizt, og þess
vegna eru tormerki á að kanna sögu þess í ritmáli. En hér verður litið
á nokkur dæmi.
Fyrst eru hér þrjú gömul dæmi. Eitt er úr kvæði eftir Benedikt Grön-
dal eldra (1762-1825), en tvö eru úr Johannes v. Háksen, þýðingu og
staðfærslu Rasmusar Rasks á Jean de France eftir Holberg frá árunum
1814-1815. Það er athugandi að í tveimur tilvikum er sko skrifað með
úrfellingarmerki:
(1) Nei, sko’ þá litlu lipritá. (Benedikt Gröndal 1833:71) (Ob.)
(2) Nej, sko’ fáluna! (Johannes v. Háksen 1934:42)
(3) Sko! Nú erud þér allr annar madr! (Johannes v. Háksen 1934:
70)