Íslenskt mál og almenn málfræði - 13.07.1981, Page 156
150
Jón Friðjónsson
(88) Hann ætlar ekkert að gera um jólin nema hvíla sig (Talmál)
(89) Þú þarft ekkert að gera nema halda þér vakandi (Ritmál)
(90) Það er ekkert (hægt) að gera nema vona hið besta
(91) Hún hefur ekkert að gera nema bíða og hlusta
(92) Hann braut ekkert af sér nema neita að hlýða
í dæmum (86)-(92) verður að teljast eðlilegra að sleppa nafnháttar-
merki eins og gert er. Hins vegar er allalgengt að nota nafnháttarmerki
í hliðstæðum dæmum, eins og sýnt skal:
(93) ekki eigoþ it annat til, nema at biðia postolann at .. . (Postula-
sögur, bls. 461)
(94) Ok engi maðr á önnur mál at deila í kirkju nema biðia fyrir
sér ok öllu kristnu folki, hon er helguð til bænahúss, ok at taka
þar hit helga husl (Gammel norsk homiliebog, bls. 65)
(95) Þeim var ekki skapað nema að skilja (Tristanskvæði)
(96) Krakkarnir fengu aldrei að gera neitt nema að skipa upp timbri
(Þórbergur og Einar ríki)
(97) . . . tréð er til einskis nýtt nema niðurhöggs og að vera kastað
á eldinn (Ritmál)
Dæmi (93)-(97) hljóta öll að teljast góð og gild, enda þótt unnt
virðist að fella brott nafnháttarmerki á hliðstæðan hátt og í dæmum
(86)-(92). Athyglisvert er, að dæmi (94) er reyndar sama dæmi og dæmi
(86), tilvitnunin er aðeins lengri, en í síðari hluta dæmis (94) er einmitt
notað nafnháttarmerki, þar sem búast mætti við, að því væri sleppt. Þess
ber þó að gæta, að síðari nafnhátturinn (taka) er að nokkru leyti að-
skilinn frá þeim fyrra (biðia) með innskotssetningu og verður því í
ákveðnum skilningi sjálfstæðari. í fyrsta kafla var að því vikið, að ef
nafnháttur stendur einn sér (oftast sem frumlag), þá væri notað nafn-
háttarmerki. Því má líta svo á, að dæmi (94) hafi nokkra sérstöðu að
þessu leyti. Dæmi (95) hefur einnig nokkra sérstöðu, þá að það er
fengið úr bundnu máli. Dæmi (96)-(97) virðast hins vegar að öllu leyti
hliðstæð dæmum (86)-(92). Ef litið er á dæmi (86)-(97) í heild, má
telja, að meginreglan virðist sú að nota ekki nafnháttarmerki í slíkum
dæmum, en þó verður vart nokkurrar óreglu (93)-(97).
4.2. í kafla 4.1 voru leidd að því rök, að ekki væri notað nafnháttar-
merki með nafnhætti í nema-lið. Frá þessari reglu eru þó tvær undan-
tekningar.