Íslenskt mál og almenn málfræði - 13.07.1981, Page 179
KRISTJÁN ELDJÁRN
Að lýsa hlutum
Til eru menn, og þeir ekki fáir, sem verja sínum lífs og sálar kröftum
á langri ævi til að rannsaka mannlegt mál. Tungumálið er eitt af því
sem skýrast sýnir yfirburði mannsins yfir ættingja sína, hin ómálga dýr.
Fræðigreinin um mannamál er því einn sprotinn á hinum mikla meiði
mannvísinda, sem er margslungnari en svo að orð fái lýst og verður
aldrei að fullu kannaður. Ljúft er og skylt að votta hverjum þeim vís-
indamanni virðingu og þökk, sem svikalaust hefur helgað sig því hlut-
verki að skýra og skilgreina þetta undursamlega hefðartákn hins skyni
gædda manns, tungumálið.
Hitt er svo annað mál, sem ekki er sök málfræðinga, að þetta ótæm-
andi viðfangsefni þeirra er síður en svo fullkomleikinn sjálfur. Mann-
legt mál er þvert á móti býsna ófullkomið til síns brúks. Margir andans
menn hafa bæði fyrr og síðar fundið fyrir þessu og kvartað sárlega
undan því að mannamál endist þeim hvergi nærri til að tjá hugsanir
sínar og tilfinningar. Orð, orð orð, segir Shakespeare í uppgjafartón
og mælir þar fyrir munn margra. Einar Benediktsson segist að vísu hafa
skilið við móðurkné, að á íslandi sé til orð um allt sem er hugsað á
jörðu. Þetta er óvenju skemmtilegt stærilæti, en fjarri lagi að rétt sé
dæmt. Mannleg hugsun er sjálfsagt mjög tengd og háð mannlegu máli.
Sumir segja að hugsunin komist ekki lengra en að þeim takmörkum
sem málið, þetta ófullkomna tæki, setur, hvort sem það er móðurmál
Einars Benediktssonar eða eitthvert annað tungumál. Flestir munu þó
líta svo á, að hugsun og tilfinning geti náð langt út fyrir þessi mörk, án
þess að nokkur lifandi leið sé að koma slíku á framfæri á vegum máls-
ins. Og þá stynja menn í vanmegni sínu og tungunnar: Því verður ekki
með orðum lýst.
En það veit heilög hamingjan að ég ætla mér ekki að fara út í neina
málfræðilega heimspeki eða háspeki eða neina speki yfirleitt. Ég varð
safnmaður á unga aldri og vandist á að fást við hluti sem gerðir eru úr
áþreifanlegu efni. Enn ætla ég að halda mig við það heygarðshorn og
minnast þess lítillega hvað það getur verið níðangurslega erfitt að lýsa