Íslenskt mál og almenn málfræði - 13.07.1981, Síða 180
174
Kristján Eldjárn
hlutum svo að vel sé. Það þarf engan djúpan hugsuð til að finna fyrir
takmörkunum málsins. Safnmaðurinn með dót sitt fær einnig að kenna
á þeim.
Allir safnmenn þurfa á því að halda að lýsa hlutum. Það þurfa þeir
fyrst og fremst að gera í safnskýrslum, en einnig í ritgerðum sem þeim
auðnast að setja saman. Það lætur að líkum að mönnum er misjafnlega
sýnt um þetta eins og allt annað, þótt allir komist í sama vandann.
Suma brestur glöggskyggni á að greina milli aðalatriða og aukaatriða,
öðrum hættir til að verða um of langorðir, svo að lýsingin drukknar í
sjálfri sér, fyrir nú utan það að fáir endast til að lesa hana. Að jafnaði
er stutt lýsing betri en löng, en einhlítt er slíkt ekki, því að tilbrigði
hlutanna eru mörg og gera hvert sínar kröfur. Stundum verður árangur
fyrirhafnarsamrar langloku álíka og gamallar klausu sem ég lærði á
þessa leið:
Fyrst er spýta, svo er spýta,
svo er spýta í kross,
svo er spýta upp,
svo er spýta niður,
svo er spýta, svo er spýta,
og svo kemst allt í ganginn.
Hætt er við að lesandi eða heyrandi þessarar runu klóri sér í kollinn
með heldur ófullkomna hugmynd um vindmyllu eða vatnsmyllu. Á
sömu lund getur farið um ítarlegar lýsingar okkar safnmanna, af því að
annaðhvort brestur sjónskyn, hagleik á mál ellegar blátt áfram skyn-
samlegt vit, dómgreind. Og skal það þó viðurkennt, að svo snúið getur
það verið að lýsa flóknum hlut að safnmaður blátt áfram leggur árar í
bát og segir eins og danir: Det kan ikke beskrives, det má ses.
En vitaskuld er uppgjöf engin lausn. Verkið verður að vinna og ekki
um annað að gera en koma sér upp eins hagkvæmum vinnubrögðum og
kostur er. Nákvæmni orða er frumskilyrði, samræmt og helst almennt
viðurkennt orðafar, einskonar staðlað orðafar fagmálsins. Gömul og
góð orð eins og þau hrökkva til og haganlega nýsmíðuð orð sem helst
allir geta goldið ljúflegt samþykki sitt. Þessi nákvæmni í orðafari á auð-
vitað við í öllum fræðum, menn verða að nota sömu orð um sama
fyrirbæri, ef þeir þykjast eiga eitthvert erindi hver við annan.
Ef lýsa skal hlut er ráðlegt að skoða hann sem gaumgæfilegast í krók
og kring áður en hafist er handa, velta honum fyrir sér í bókstaflegum
skilningi, kynnast honum vel og því betur sem hann er flóknari að