Íslenskt mál og almenn málfræði - 13.07.1981, Page 311
299
íslensk málfrœðiheiti á 19. öld
,deklínera, komparera, konjúgjera1 sem þá var kallað, og mjer þótti
skrítin íþrótt“ (39). Á þeim tíma hafa latnesku heitin eftir því verið í
algleymingi.
Greinilegt er, að með Guttormi Pálssyni kemur ný tíð í þessu efni.
Hann hefst handa um að búa til ný málfræðiheiti, sem taka mið af
dönskum fræðiheitum á þessum tíma, en þau má aftur rekja til Þýska-
lands. (Sjá Paul Diderichsen: Rasmus Rask og den grammatiske tradi-
tion. Kbh. 1960, 92-99 og 176-194.). Rask íslenskar heitin fyrst undir
sterkum áhrifum danskra heita, þó að hann vari við þvílíku í bréfi til
Árna Helgasonar 1820 (sbr. bls. 287). Síðar falla heitin hjá honum í
sama farveg og hjá Bessastaðamönnum.
Tryggvi Gíslason segir í skrá sinni um samband málfræðirita á 19.
öld: „Að því er virðist við lauslega athugun, er eitthvert samband á
milli rita Guttorms, Rasks, Hallgríms Schevings og Sveinbjarnar Egils-
sonar um ísl. málfræði, en ekki hefur unnizt tími til að kanna, hvernig
þau tengsl eru.“ (27) Hér hefur heldur ekki verið gerð könnun á þess-
um tengslum, en sjá má af listanum hér að framan, að málfræðiheitum
þeirra svipar saman, enda störfuðu þeir sumir saman og höfðu samband
sín á milli, en tengiliðurinn í starfi þeirra var skólakennsla á Bessastöð-
um og í Reykjavík.
Um kennslu í íslensku er það að segja, að það er fyrst 1846 með
reglugerð um Latínuskólann að kveðið er á um að kynna „hinar al-
mennu hugmyndir málfræðinnar“. (Lovsamling for Island XIII,450.).
í nýrri reglugerð 1850 stendur þetta um íslensku: „í allri túngumála-
kennslu skal hafa íslenzkuna, til að gjöra piltum skýrar og skiljanlegar
hinar almennu málfræðislegu hugmyndir, og þessar málfræðislegu hug-
myndir á að heimfæra upp á íslenzkuna.“ (Lovsamling XIV,516.).
Með þessu eru íslensk málfræðiheiti auðvitað fest í sessi. í kennslunni
hafa heitin slípast og lagast í munni, og með málfræði Halldórs Briem
er komin festa á þau, og þannig hafa þau haldist nær óbreytt síðan, eins
og kennslubækur Björns Guðfinnssonar og afmælisbarnsins bera vott
um.
VIÐAUKI
Þegar ég hafði lokið þessari samantekt barst mér í hendur ljósrit af
handriti að íslenskri málfræði eftir Guðmund Þorláksson magister
(,,Glosa“) (1852-1910). Rit þetta kallaði hann „Frumlög íslenzkra
orðamynda“. Eiríkur Rögnvaldsson B.A., sem léði mér þetta ljósrit,