Andvari - 01.06.2011, Blaðsíða 108
106
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON
ANDVARI
erfiðar spurningar og í reynd túlkunarvanda í huga samferðafólks nær og fjær.
Ekki síst þegar um er að ræða lesendur höfundar sem í verkum sínum fjallar
um persónur er bera djúp sár, fá að reyna átakanlegan missi eða standa á ein-
hvern hátt frammi fyrir dauðanum og heyja þar merkingarglímu.7 Sjálfsvíg
Hemingways var gjörningur sem hefur æ síðan vakið erfiðar spurningar í
huga þeirra sem á annað borð telja að hann hafi í verkum sínum fengist með
einörðum hætti við lífsins vá og vonbrigði, ást og unað. Margir geta vafalaust
tekið undir með þýska rithöfundinum Rolf Hochhuth er hann segir í grein,
sem birst hefur á íslensku: „Nú lesa menn hann öðru vísi en áður: það er
vegna þess hvernig hann fór,“ en ýmsir kunna að hika við að samsinna því er
Hochhuth bætir við: „Þessi dauðdagi gerði það að verkum, að mönnum finnst
sögur Hemingways ósviknar - sjálfsmorðið var eins konar löggilding. Þá fyrst
kom í ljós, að líf Hemingways og verk hans voru eitt, en ekki tvennt.“8
Leicester Hemingway birti, skömmu eftir dauða höfundarins, bók sem
hann lýkur með snöggri lýsingu þar sem hann líkir Ernest bróður sínum við
japanskan bardagahöfðingja, „samurai“, sem fremur það sem hann kallar
hinn síðasta jákvæða gjörning í lífinu, „the final positive action of his life“,
þegar hann styttir sér aldur.9 Þótt Carlos Baker noti ekki svo einhlít lokaorð
í efnismikilli og þekktri bók um ævi Hemingways, má segja að hann beiti
stílaðferð Hemingways með því að ljúka sinni stóru bók - og draga hana
jafnframt saman í einn punkt - með hlutlægri lýsingu (þó að ljóst megi vera
hversu miklar hræringar eru undir yfirborðinu), þar sem hann ímyndar sér
og sviðsetur síðustu hreyfingar höfundarins; hvernig hann renndi skotum í
tvíhleypuna, studdi hana að gólfi en enni sínu að hlaupunum og ýtti á báða
gikkina.10
Eftirmœlin
Ernest Hemingway hafði einu sinni verið talinn af - eftir flugslys í Afríku
1954 - og þótt hann væri illa lemstraður skemmti hann sér vel við að lesa
dánartilkynningarnar og eftirmælin um sig.11 En þennan sumardag fyrir
hálfri öld, í Ketchum, Idaho, voru endalokin skýr - og þó ekki að öllu leyti.
Sumir töldu fyrst að um slysaskot væri að ræða og það setur svip sinn á fyrstu
umsagnirnar sem birtast. I Morgunblaðinu þriðjudaginn 4. júlí 1961 segir að
Hemingway hafi orðið fyrir „skoti úr einni af byssum sínum, er hann var að
fága.“ Brátt varð þó ljóst hvernig höfundurinn hafði sjálfur búið um hnútana.
Dauði höfundarins vakti mikil viðbrögð um allan heim. í Morgunblaðinu
var áðurnefndan dag forsíðuviðtal við Halldór Laxness, sem sagði Heming-
way hafa verið „í miðpunkti aldarinnar" og „ímynd þess allra bezta í engil-
saxneskri manngerð. Hann hefur sennilega haft meiri áhrif en nokkur annar