Andvari - 01.06.2011, Blaðsíða 95
ANDVARI
DRAMATÍSKT EINTAL í VERKSMIÐJU
93
kunni alls ekki við sögupersónuna. Sérstaklega gæti ýmsum þótt erfitt að hafa
samúð með sóparanum þegar í ljós kemur að hann aðhafðist ekkert á meðan
bandarískur hermaður nauðgaði systur hans í næsta herbergi, að eigin sögn
af því að hann var hræddur um að hinir hermennirnir í partíinu myndu ota
að honum byssum. En er sóparinn þá of fjarlægur þeim heimi sem lesandinn
þekkir? Er hann ósannfærandi persóna?
Hobsbaum (1975:239) segir að í dramatískum einræðuljóðum á Viktoríu-
tímanum hafi falist mikil samfélagsgagnrýni, ljóðin hafi vísað sterkt til sam-
tímans, sýnt skuggahliðar og undirheima og lýst persónum sem lugu, myrtu
°g drýgðu hór. Þetta gæti vel átt við um flest dramatísk eintöl, hvort sem er
í ljóð- prósa- eða leikritaformi, og helgast ekki síst af því að aðalpersónurnar
sem tala eru í andstöðu við höfundarafstöðu verksins. Mörg persónueinkenni
þeirra, gerðir og segðir, eru með öðrum orðum ekki ákjósanleg að mati höf-
undarins. Sigríður Stefánsdóttir (1999:53) nefnir í meistararitgerð um verk
Jakobínu Sigurðardóttur að Snaran sé sprottin af samtímaviðburðum ritunar-
tímans og sóparinn og skoðanir hans séu í raun andstæða Jakobínu og hennar
eigin skoðana. Þær birtust meðal annars skýrt í greininni „Himnasendingar"
sem Jakobína skrifaði í Þjóðviljann tveimur árum áður en Snaran kom út en
ein kveikja skrifanna var ákvörðun yfirvalda um byggingu kísilgúrverksmiðju
í Mývatnssveit. í greininni fjallar hún um ábyrgð hins almenna borgara á því
sem fram fer í landinu og bendir á að ekki sé hægt að kenna stjórnvöldum
um allt. „Það kann að vera þægilegt að eiga sér forsjón, sem varpa má á allri
ábyrgð ef illa fer,“ segir Jakobína, „en slíkt lífsviðhorf sæmir ekki mönnum,
heldur einhverskonar millistigi húsdýrs og manns.“ Hún kennir ekki um lélegri
dómgreind heldur skorti á sjálfsvirðingu: „En okkur vantar sjálfsvirðingu, þá
sjálfsvirðingu almennings, sem treystir dómgreind sinni til að velja og hafna,
án tillits til lífsþæginda og stundarhagnaðar.“ Sóparinn í Snörunni er þegar
öllu er á botninn hvolft ekki vondur maður, grimmur eða hættulegur. Það sem
hrjáir hann er að hann skortir fyrst og fremst þessa sjálfsvirðingu. Hann er hinn
ábyrgðarlausi, almenni borgari sem Jakobína húðskammar í grein sinni; sá sem
»hniprar sig saman eins og hræddur brekkusnigill og fullyrðir: Ég hef ekkert
vit á þessum málum. Það eru víst bara kommúnistar, sem eru á móti þessu“
(Jakobína Sigurðardóttir 1966:3). Veiklyndi sóparans þarf ekki endilega að
koma í veg fyrir að lesandinn fái samúð með honum, heldur ættu einmitt margir
að geta þekkt álíka veikleika hjá sjálfum sér.
Hinn þögli samstarfsmaöur
Sóparinn er ekki eina sögupersóna Snörunnar, því ekki má gleyma viðmæl-
anda hans sem við fáum þó aldrei að heyra í. Ritdómurum sem skrifuðu um