Andvari - 01.06.2011, Blaðsíða 158
156
SVEINN EINARSSON
ANDVARI
hér, og höfundarnir bændur og húsfreyjur, sjómenn og prestar, vinnukonur og
vinnumenn, fólk sem annars fékkst við okkar venjubundnu búshætti.
I handritasafni Landsbóksafns-Háskólabókasafns eru nokkur leikrita-
handrit sem lítill gaumur hefur verið gefinn. Eitt slíkt, Ekki er allt sem sýnist
eða Eldhúsdagurinn, eftir Steingrím skáld Thorsteinsson var dregið fram úr
gleymsku ekki alls fyrir löngu.2 En svo vill til að hann er ekki eini sonur
Bjarna amtmanns á Stapa, sem setti saman leikrit og verður nú frá því sagt.
Þannig atvikaðist, að skömmu fyrir lát sitt sendi góðvinur minn, Jón
Marinó Samsonarson, sérfræðingur á Stofnun Arna Magnússonar á íslandi,
mér uppskrift sem hann hafði gert af leikriti sem samið hafði langafi konu
hans, Helgu Jóhannsdóttur, Árni Thorsteinsson landfógeti. Ég hafði haft pata
af þessu leikriti á safninu, en aldrei kynnt mér efni þess. Fannst þó að það ætti
skilið að vakin yrði á því eftirtekt og að menn kynntust innihaldi þess. Það
heitir ekki neitt. Á endinum er nokkur fljótaskrift en þó má segja að verkið
sé fullsmíðað eins og það hefur varðveist.
Árni Thorsteinsson landfógeti var mikill framfaramaður sem kom að
ýmsum góðum málum í Reykjavík. Hann hóf nám í Bessastaðaskóla, en var
í hópi þeirra sem fyrstir luku prófi frá Reykjavíkurskóla 1847. Eftir laganám
í Kaupmannahöfn var honum veitt sýslumannsembætti á Snæfellsnesi og bjó
þá hjá öðrum menningarmanni, Árna Thorlaciusi, í Stykkishólmi. En 1861
var hann skipaður land- og bæjarfógeti með aðsetur í Reykjavík og svo einn
landfógeti eftir að embættunum var skipt 1874. Árni sat lengi á þingi sem
konungskjörinn, og þóttu þeir þingmenn heldur hægfara í sjálfstæðismálum.
Hugur hans til landsins birtist þó í margvíslegum lofsverðum gjörðum. Hann
lagði lið því, að komið var upp spítala í Reykjavík, í sama húsi og klúbburinn
Skandinavia hafði verið til húsa við suðurenda Aðalstrætis, hann átti þátt
í að Skólavarðan var reist, að Tjarnarhólminn var stækkaður og lagfærður,
var eftirlitsmaður landsreikninga um nokkurra ára skeið, sat í nefndinni sem
sá um byggingu Alþingishússins og þannig mætti lengi telja, til dæmis að
hann var forgöngumaður um stofnun Fornleifafélagsins og fyrsti forseti þess.
Hann lagði og grunn að starfsemi sparisjóða hér á landi. Ekki síst var hann
forgöngumaður um garðrækt; hann bjó í því húsi sem fyrst var kallað land-
fógetahús við Austurstræti 20 en síðar kennt við Hressingarskálann. Bak við
það hús var Landfógetagarðurinn, unaðsreitur í miðbæ Reykjavíkur. Upphaf
ræktunar var að sögn það að þar hefði Jörundur hundadagakonungur holað
niður kartöflum. En Árni gerði gott um betur, bæði með nytjajurtir, tré og
skrautjurtir. Einhvern sérstakan áhuga hefur hann haft á Jörundi og ferli hans,
því að í Þjóðarbókhlöðunni eru með hans hendi aðdrættir um það ævintýri
allt.3 Og mitt i öllum embættisönnum gaf hann sér sem sagt tíma til að setja
saman leikrit.
Ef þá leikritið varð til eftir að hann var kominn í embætti. Ekki er vitað