Andvari - 01.06.2011, Blaðsíða 116
114
ÁSTRÁÐUR EYSTEINSSON
ANDVARI
aði þeim sem þeyttu „málhreinsunarlúðurinn" og lætur í varnargrein sinni
falla hin gullvægu orð: „Ekkert orð er skrípi, ef það stendur á réttum stað.“25
Umræðan sat hinsvegar að mestu föst í deilum um málfar og málhreinsun.
Lítt var spurt um hin margvíslegu tengsl frumtexta og þýðingar og hvort orð
stæðu „á réttum stað“ með tilliti til þeirra tengsla. Það hefur reynst erfitt að
þoka umræðunni um þýðingu Halldórs úr þessum farvegi.
En það er hinsvegar enginn vafi að þetta er mikilvæg þýðing og þar með
mikilvægt verk í íslenskri bókmenntasögu. Það var kappsamlega lesið og
þetta voru fyrstu kynni margra íslenskra lesenda af verki eftir Hemingway.
Þetta var þeirra Hemingway og gildi hans var eiginlega tvöfalt vegna þess að
hann var til þeirra kominn í búningi Halldórs Laxness. Sá sem þetta skrifar
birti í Skírni árið 1984 ritgerð um þýðingar þar sem meðal annars er fjallað
sérstaklega um þessa þýðingu og hún gagnrýnd nokkuð, ekki síst fyrir skort á
heildarsýn og samræmdum vinnubrögðum.26 Einnig var bent á nokkrar óum-
deilanlegar rangþýðingar, sums staðar af slysni sem hent getur hvaða þýðanda
sem er, t.d. þegar orðið „roads“ verður „vagnar“ í stað „vegir“. Ég gat ekki
kvartað yfir skorti á viðbrögðum við þessari ritgerð; ýmsir töldu umræðuna
gagnlega en ljóst var að aðrir töldu óviðeigandi að fundið væri að texta eftir
höfuðskáld þjóðarinnar, allt eins þótt um væri að ræða túlkun hans og fram-
setningu á verki annars manns. Það segir reyndar sitt um sterka stöðu þess-
arar þýðingar að hún hefur tvisvar verið prentuð síðan þessi grein mín birtist
og þar eru villurnar enn á sínum stað. Texta Halldórs Laxness verður ekki
haggað. Þýðingin hefur alls verið gefin út fjórum sinnum, sem er meira en
hægt er að segja um flest frumsamin bókmenntaverk frá síðustu öld. Hún er
skýrt dæmi um vægi þýðinga í bókmenntasögunni, vægi sem alltof fá merki
sjást um í sjálfri skráningu bókmenntasögunnar - þótt hinar óhagganlegu
villur undirstriki vissulega „helgidóm" sem þýðandinn hefur fyrst og fremst
öðlast vegna frumsaminna verka sinna.
En skiptir Hemingway ekki líka máli fyrir þau verk, þ.e. sagnaverk Halldórs
Laxness? Peter Hallberg greinir ágætlega hvernig Laxness þróar með sér
nýja „stílhugsjón“ er hann tekur að vinna að íslandsklukkunni og hafi þar
hliðsjón bæði af Hemingway og íslendingasögunum, en sjálfur ber Halldór
verk Hemingways saman við íslendingasögurnar í áðurnefndum inngangi að
Vopnum kvöddum. Hallberg er nokkuð í mun að lesendur telji ekki að Halldór
sé að líkja eftir Hemingway. Hann segir að „beina eftirlíkingu“ Halldórs á stíl
Hemingways sé eingöngu að finna á einum stað, í minningaþætti um skáldið
Jóhann Jónsson. Raunar gengur Hallberg of langt í því að gera verk Heming-
ways að einskonar æfingatæki fyrir Halldór Laxness, og lendir í ógöngum
með þá rökfærslu. Hann vitnar í inngangsorð Halldórs um persónu- og hug-
myndaheim Hemingways; hvernig sá síðarnefndi brýni hugtak ástarinnar
með hugtaki dauðans, en síðan segir Hallberg að þegar Halldór „tók til við