Andvari - 01.06.2011, Blaðsíða 13
GUÐRÚN KVARAN
Jakob Benediktsson
Það er ekkert áhlaupaverk að skrifa um Jakob Benediktsson þannig
að rétt og raunsönn mynd fáist af manni sem á sinn hógværa hátt átti
þátt í að móta samtíð sína á svo mörgum sviðum. Hann var einstaklega
hjartahlýr og hjálpsamur við þá sem til hans leituðu. Skipti þá ekki máli
hvort um var að ræða menntaða fræðimenn eða stúdenta að berjast við
vandamál námsefnisins. Hann átti mjög auðvelt með að umgangast
yngra fólk sem jafningja þannig að áratuga aldursmunur þurrkaðist
út. Þannig kynntist ég Jakobi strax í upphafi náms míns við Háskóla
Islands, við urðum strax vinir og hélst sú vinátta allt til þess er hann
féll frá.
í minningargrein eftir Halldór Guðmundsson bókmenntafræðing er
manninum Jakobi Benediktssyni afar vel lýst:
Hlýja; hlýja, kankvísi og heiðskír skynsemi er það sem kemur í hugann þegar
hugsað er til Jakobs Benediktssonar. Jakob var hlýr í viðmóti og óvenju örlátur
við hvern þann fróðleiksfúsan mann sem til hans leitaði. En hann var að sama
skapi áhugalítill um yfirborðsmennsku, grillufangara og allar þær bábiljur
sem mark sitt setja á tíðarandann. Birta sígildrar kammertónlistar, gleði góðra
sönglaga veitti honum óþrjótandi ánægju, en honum leiddist ómerkilegt sull
á sviði listsköpunar og það sem honum leiddist leiddi hann hjá sér. Hann var
alvörumaður í sínum fræðum, en neitaði sér ekki um gleði lífsins. Það var
hátíðastund að fá að sitja hjá honum kvöldpart yfir viskýglasi og pípu, og alltaf
þótti mér hann þá vera holdgerving þeirra lýsingarorða sem íslendingar hafa
stundum um góða menn: ræðinn og skemmtinn.1
Ég get auðveldlega tekið undir öll þessi orð, nema viskýið. Ég fékk kaffi
og sjerrýtár, þegar ég leit inn, Jakob reykti pípuna sína og Grethe, kona
hans, smávindla. Jakob hafði oftast orðið og ég harma það nú að hafa
ekki lagt margt betur á minnið sem hann sagði mér frá æviferli sínum.
í því sem hér fer á eftir er reynt að bregða upp mynd af Jakobi eins
og hann er mér í huga. Ég mun ekki vitna í persónuleg samtöl sem
við áttum mörg og löng þar sem mig gæti misminnt og enginn annar