Andvari - 01.06.2011, Blaðsíða 28
26
GUÐRÚN KVARAN
ANDVARI
í minningargrein um Jón Helgason vék Jakob lítillega að þessum
verkum og skrifaði:
Eitt þeirra sviða sem honum var hugstætt voru þau umskipti sem urðu í
íslenskri lærdómssögu fyrir áhrif húmanismans allt frá dögum Arngríms
lærða. Þar var mikill akur óplægður, latínutextar margir óútgefnir, flestir lítt
eða ekki kannaðir. ...
Stundum hefur hvarflað að mér að Jón hafi snemma talið að helst yrði
eitthvert gagn að latínukunnáttu minni við að fást við rit Arngríms lærða. Hann
fór þó ekki geyst af stað, heldur otaði mér fyrst út í að spreyta mig á útgáfum
á minni háttar latínutextum íslendinga af næstu kynslóð á eftir Arngrími,
þeirra Gísla Magnússonar og biskupanna beggja, Brynjólfs og Þorláks, en
ritgerðir þeirra síðarnefndu voru fyrsta latínuritið sem kom út í Bibliotheca
Arnamagnæana. Allir þessir menn voru í tengslum við Ole Worm, og því
taldi Jón eðlilegt að næsta skrefið skyldi vera að gefa út bréfaskipti hans við
Islendinga.26
Síðar átti Jakob eftir að ráðast til atlögu við Arngrím og bréfaskipti Ole
Worms eins og rakið verður aftar í greininni.
Jakob var í stjórn félagsins Samfund til udgivelse af gammel nordisk
litteratur og á þess vegum gaf hann út Veraldarsögu með rækilegum
inngangi árið 1944.27 Veraldarsaga er saga heimsins frá sköpun og fram
á 12. öld. Hún er að mati Jakobs þýðing eða umritun á óþekktu latnesku
frumriti og taldi hann að hún hefði ekki verið skrifuð síðar en 1190 en
gæti verið talsvert eldri. Hún er varðveitt í tveimur handritum, A (AM
625, 4to) frá um 1200 og B í mörgum bútum, þeim elstu frá um 1200.
Kjarna frumritsins má rekja til heimskroníku Beda prests og ísidórs en
hann er aukinn með efni úr Biblíunni, biblíuskýringum og úr öðrum
frásögnum um sögulega viðburði. Jakob benti á að Veraldarsagan hefði
verið notuð bæði í Lögmannsannál og Skálholtsannál og í báðum til-
vikum hefði verið stuðst við B-gerðina.
A vegum Fræðafélagsins sá Jakob einnig um útgáfu á sjöunda bindi
Jarðabókar Arna Magnússonar og Páls Vídalín, sem kom út 1940, og
síðar á tíunda og ellefta bindi, lokabindinu, 1943.
Arið 1943 sá Jakob um ljósprentaða útgáfu Skarðsbókar og ritaði
inngang. Skarðsbók er meðal eldri skinnbóka Jónsbókar, kennd við
Skarð á Skarðsströnd og er mikilvæg heimild um veraldleg og kirkjuleg
lög á Islandi á 14. öld. Jón Helgason skrifaði ritfregn um útgáfuna í
Frón og lauk henni á þeim orðum að Jakob hefði samið inngang að
Skarðsbók „og ekki aðeins gert skýra grein fyrir öllu sem áður var um