Andvari - 01.06.2011, Blaðsíða 76
74
ÓLAFUR ÁSGEIRSSON
ANDVARI
lög voru samþykkt, félaginu valið heiti og formaður kjörinn, Jón Sigurðsson,
forseti alþingis.1 Hann valdi sér varaformann, Halldór Kr. Friðrikssson
alþingismann og yfirkennara við Lærða skólann. Ennfremur voru kosnir
42 fulltrúar fyrir sýslur landsins. Telst 19. ágúst 1871 því stofndagur Hins
íslenska þjóðvinafélags.
Samkvæmt þessum fyrstu félagslögum var tilgangur félagsins „að reyna
með sameiginlegum kröftum að halda uppi landsréttindum og þjóðarrétt-
indum Islendinga, efla samheldni og stuðla til framfara landsins og þjóðar-
innar í öllum greinum.“ Ennfremur var yfirlýst markmið félagsins að „vekja
og lífga meðvitund íslendinga um, að þeir séu sjálfstætt þjóðfélag og hafi því
samboðin réttindi."2 Avinna þyrfti þjóðinni frelsi og sjálfsforræði til þess að
hún fengi notið sín til allra framkvæmda og framfara. Fyrsta skilyrði væri
að fá setta stjórnarskrá er veitti fullt stjórnfrelsi í öllum íslenskum málum:
alþingi með löggjafarvaldi og fullu fjárforræði auk landstjórnar í landinu
sjálfu með fullri lagalegri ábyrgð fyrir alþingi. Þetta má segja að hafi verið
hin pólitíska stefnuyfirlýsing þingmanna og félagsins.
Það var jafnframt tilgangur félagsins að auka samheldni og stuðla að
framförum, einkum með því að efla bóklega og verklega menntun. Samtök
og félagsskapur voru að mati Jóns Sigurðssonar grundvöllur framfara. Bein
tengsl væru á milli verklegra framfara og árangurs í stjórnfrelsisbaráttu. Þetta
kom vel fram í umburðarbréfi sem Jón ritaði erindreka félagsins, Eggerti
Gunnarssyni, bróður Tryggva kaupstjóra, er hann fór um landið sumarið 1872
að hvetja bændur og búalið til þátttöku í Gránufélaginu og Þjóðvinafélagi.
Jón hvatti Eggert til að brýna fyrir öllum, hversu náið samband er á milli
allra framkvæmda verslunarfélaganna og Þjóðvinafélagsins og hversu þær
framkvæmdir hljóti að ... „beina oss veg til að vinna landsréttindi vor og
þjóðfrelsi.“3
Á áratugnum á undan hafði gætt talsverðra flokkadrátta meðal hinna þjóð-
kjörnu þingmanna í stjórnskipunarmálinu og sumir fyrrum samherjar og
stuðningsmenn Jóns Sigurðssonar á stundum tekið öndverða stefnu eða
jafnvel snúið við honum baki. Það var Jóni ætíð kappsmál að halda sínum
flokki saman og þá vitanlega undir hans leiðsögn. Nauðsyn þess að „halda
hóp saman og sundrast ekki“ var boðskapur forseta í samsæti sem honum var
haldið í Kaupmannahöfn í október 1865. Var hann þá nýkominn af þingi þar
sem flokkur hans hafði í raun riðlast í fjárhagsmálinu og stefna Jóns aðeins
unnið nauman sigur með 14 atkvæðum gegn 11.
Það var því ef til vill vonum seinna að Jón Sigurðsson og flokkur hans í
frelsisbaráttunni kæmu formlegum samtökum á legg. Þetta hafði Jón þegar
orðað fyrir Þjóðfundinn 1851. Til dæmis í bréfi til Páls Melsteðs yngra í maí
1850: