Sagnir - 01.05.1982, Qupperneq 106
Á töflu I kemur fram að mest samstaðan er
hjá þeim ríkjapörum sem Noregur, Svíþjóð
og Danmörk mynda. Næst í röðinni koma
þau pör sem ísland myndar með þessum
þrem ríkjum, siðan þau pör sem Finnland og
þessi ríki mynda en neðst á listanum er parið:
Ísland/Finnland.
Skýringar á þessari röð þurfa ekki að vera
langsóttar. Noregur, Svíþjóð og Danmörk
hafa á margan hátt mun meiri samskipti sin á
milli en við útkjálkaríkin ísland og Finnland.
Þegar grannt er skoðað kemur til dæmis í
ljós að verslunin milli þessara ríkja er mun
meiri hlutfallslega en verslun þeirra við ís-
land og Finnland.6) Ætti því engum að koma
á óvart þótt ríkin þrjú sýni mesta innbyrðis
samstöðu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.
Hina tiltölulega litlu samstöðu íslands og
Finnlands ætti heldur ekki að reynast ýkja
erfitt að skýra. Þessi lönd eru á margan hátt
tiltölulega fjarri hvort öðru, landfræðilega,
menningarlega en ekki síst hvað snertir
afstöðuna til heimsmála yfirleitt, ísland sem
aðili að NATO og mjög hallt undir Banda-
ríkin en Finnland hlutlaust og hollt Sovét-
ríkjunum.
Afstaðan í ágreiningi austurs og vest-
urs
Á því tímabili sem til umræðu er í þessari
grein lifði heimurinn í skugga kalda stríðs-
ins. Járntjaidið var fellt og andstæðar fylk-
ingar austurs og vesturs bjuggu um sig hvor
gegnt annarri gráar fyrir járnum.
Ágreiningurinn milli austurs og vesturs
endurspeglaðist glögglega á vettvangi Sam-
einuðu þjóðanna og í atkvæðagreiðslum þar
mátti ósjaldan greina það hyldýpi sem mynd-
ast hafði milli austurs og vesturs. Að
sjálfsögðu var þessi ágreiningur hjá S.Þ. þó
mismikill. Fyrir kom að hann væri lítill eða
enginn i einstaka málum en oftast var hann
einhver. í skrifum sínum um afstöðu Norð-
urlanda hjá S.Þ. á árunum 1946—1963
skiptir Kurt Jacobsen ágreiningi austurs og
vesturs niður í mismunandi stig eftir því
hversu mikill hann var hverju sinni. Leggur
Jacobsen í þessu efni til grundvallar hvernig
forysturíki blokkanna tveggja greiddu at-
kvæði hvert gagnvart öðru:
1. Hátt stig ágreinings (high degree of
conflict): Sovétríkin greiða atkvæði á
móti vesturveldunum þrem, Banda-
ríkjunum, Bretlandi og Frakklandi.
2. Miðstig ágreinings (medium degree of
conflict): Sovétríkin og Bandaríkin
greiða atkvæði hvor á móti öðrum.
3. Lágt stig ágreinings (low degree of
conflict): Vesturveldin öll, Bandaríkin
ein eða Sovétríkin sitja hjá við at-
kvæðagreiðslu.7)-
í framhaldi af þessu tali um stigskiptingu
ágreinings milli austurs og vesturs er vert að
minnast hér á tímabilaskiptingu, sem oft á
eftir að vitna til í þessari grein. Ensku orðin
yfir tímabilin ættu að gefa mönnum
hugmynd um hvað liggur að baki nafngift-
unum:
1. Pre-alliance, 1946—1948.
2. Alliance-formation I, 1949—1951.
3. Alliance-formation II, 1952—1954.
4. Bi-polar, 1955—1959.
5. Post-colonial, 1960—1963.
Enginn skal undrast þótt íslendingar hafi
að jafnaði tekið eindregna afstöðu með vest-
urblokkinni þegar deilur risu milli hennar og
austantjaldsríkjanna á vettvangi S.Þ. á ár-
unum 1946—1963. Með- aðild sinni að
NATO hafði ísland eins og Noregur og Dan-
mörk skipað sér í hóp þeirra ríkja sem töldu
sér stafa ógn af andstæðingunum austan
járntjaldsins.
Þegar grannt er skoðað kemur í ljós að
beint samband er á milli samstöðu Norð-
urlanda með vesturveldunum á vettvangi
Sameinuðu þjóðanna og þess hversu mikinn
ágreining er um að ræða hverju sinni milli
austurs og vesturs. Vaxandi ágreiningur aust-
urs og vesturs veldur aukinni samstöðu allra
Norðurlandanna nema Finnlands með
vesturblokkinni. Aukningin er hér að vísu
lítil hjá Svíþjóð en mest er hún hjá íslandi.8)
Svipað kémur í ljós þegar athuguð er sam-
staða Norðurlandanna með Bandaríkjunum
í atkvæðagreiðslum hjá S.Þ. á tímabilinu
1946—1963. NATO-ríkin þrjú, Noregur,
Danmörk og ísland sýndu eins og vænta
mátti meiri samstöðu með Bandaríkjunum
en hlutlausu ríkin, Svíþjóð og Finnland. Á
töflu II má sjá hvernig háttað var samstöðu
einstakra Norðurlanda með Bandarikjunum
í atkvæðagreiðslum hjá S.Þ. á árunum
1946—1963. Taflan nær yfir þau mál sem
fella má undir hátt stig ágreinings milli
austurs og vesturs samkvæmt skilgreiningu
hér að framan og í töflunni er notuð sú tíma-
biliaskipting sem áður er drepið á.
104