Sagnir - 01.06.2009, Page 38

Sagnir - 01.06.2009, Page 38
Sagnir, 29. árgangur andlega óæðri karlmönnum, almennt voru karlmenn sammála þeirri staðhæfingu. I umræðum um pólitík, bókmenntir og hluti sem tilheyrðu opinberu sviði töldu konur sig á engan hátt jafningja karlmanna.25 Það kemur fram í fjölmörgum heimildum sem liggja eftir konur á 19. öld að þær voru metnar út frá hæfileikum sínum til hússtjórnar. Kunnátta í kvenlegum dyggðum markaði stöðu kvenna, hvort sem það var innan samfélagsins eða inni á heimilinu. Ef þær höfðu hæfileika til slíkra verka töldust þær eftirsóknarverður kostur.26 Konur höfðu mikið með uppeldi barna sinna að gera, þær sáu að mestu um grunnmenntun þeirra áður en almenningsfræðsla var tekin upp. Sú menntun fólst aðallega í kennslu í kristnum fræðum og lestri. Menntun kvenna var mikið ábótavant þrátt fyrir stofnun kvennaskóla á síðari hluta 19. aldar. Þær fengu lágmarks menntun en óþarfi þótti að kenna þeim annað en það sem gat nýst þeim við hefðbundin kvennastörf. Að mati Ingu Huldar Hákonardóttur lá menntun að baki fyrstu hugmyndum um bætta stöðu kvenna, bæði á íslandi og erlendis. Þeirri menntun var fyrst og fremst ætlað að búa stúlkur undir framtíðarhlutverk þeirra sem mæður og eiginkonur.27 Menntuð kona var betur undir það búin að vera eiginmanni sínum góður félagi jafnframt því að vera betri uppalandi og húsmóðir en ómenntuð. Því var það töluverðs virði fyrir samfélagið að mennta konur að vissu marki.28 Aðalmótrök andstæðinga kvenréttindasinna í baráttunni fyrir jöfnum rétti kynjanna byggðu á því að konur væri líkamlega veikari en karlar og síðri en þeir andlega. Stórlega var dregið í efa að konur gætu hugsað rökrétt eða tekið skynsamlegar ákvarðanir.29 Konur voru góðar til síns brúks en áttu með engu móti erindi inn á opinberan vettvang þar sem karlmaðurinn réði lögum og lofum. Heimildir benda til þess að hvorki karlmenn né konur hafi getað ímyndað sér konur starfandi á opinberum vettvangi. Konur voru lofaðar fyrir blítt lundarfar og fegurð, ekki er víst að þær hafi fengið viðurkenningu fyrir aðra kosti og eiginleika. Sérstaklega ef þeir eiginleikar voru tileinkaðir karlmönnum t.d. gáfur. Líklega hafa margar hæfileikaríkar konur þurft að fela getu sína fyrir samfélagi og heimilisfólki til að eiga það ekki á hættu að teljast ókvenlegar. Patricia Meyer Spacks segir að þátttaka kvenna í opinberu lífi stangist á við hefðbundnar skilgreiningar á kvenleikanum. Konur sem skara fram úr þurfi því að gera lítið úr árangri sínum til að glata ekki kvenleikanum.30 Þegar kostum kvenna eða vel unnum verkum var hrósað var þeim oft líkt við karlmenn. Sagt var að þær hefðu „karlmannshug“ og „karlmannsgildi“ svo fátt eitt sé nefnt. Það má draga þá ályktun að eiginleikar sem eignaðir voru körlum væru eftirsóknarverðari en þeir sem tengdir voru kvenleika. Karlmanni hefur verið hin mesta skömm að vera tileinkað kvenleg einkenni, s.s. blíðlyndi. Einnig má draga þá ályktun að hefðbundnum karlmannsverkum hafi verið gefið meira vægi en hefðbundnum kvenmannsverkum. Fátítt var að karlmenn tækju þátt í kvenmannsverkum en ekki óalgengt að konur þyrftu að ganga í karlmannsstörf, s.s. að taka til hendinni utan veggja heimilisins. Það átti sérstaklega við á fátækari bæjum þar sem ekki var hægt að ráða margt vinnufólk. Þó voru takmörk fyrir því hversu langt konur máttu stíga yfir á svæði karlmanna. Þau mörk voru dregin þar sem hið opinbera valdsvæði karlmannsins utan heimilisins og einkalíf heimilisins mættust. Konur máttu sýna karlmannshug í kvenlegum málefnum sem kröfðust kjarks og þors, s.s. umsjón með vinnu hjúa, bústörfum, matargjöfum og viðgjörningi við fátæka.31 Sigurður Gylfi Magnússon heldur því fram að verkaskipting kvenna og karla hafi alls ekki verið eins fastmótuð og margir fræðimenn halda fram. í grein sinni „Kynjasögur á 19. og 20. öld?“ bendir hann réttilega á að flestar heimildir sem liggja eftir fólk á síðari hluta 19. aldar eru komnar frá yfirstéttinni og menntamönnum. Heimildirnar gefa því elcki raunsanna mynd af aðstæðum sveitafólks. Mýtan um konur oghlutverkþeirra var sköpuð af elítu landsins, en samkvæmt mýtu þessari snerust störf húsmæðra aðallega um barnauppeldi og húshald. Raunveruleiki alþýðu landsins var annar samkvæmt víðtækum rannsóknum Sigurðar á frumheimildum frá 19. öld. Fólk sinnti þeim verkum sem þurfti hverju sinni burtséð frá kynferði. Einungis þeir best settu gátu leyft konum sínum að halda til innandyra og sinna kvenlegum verkum.32 Sigurður varpar upp mikilvægu sjónarhorni á kvennarannsóknir. Hann dregur í efa niðurstöður fjölmargra fræðimann sem lagt hafa rannsóknir á konum á síðari hluta 19. aldar fyrir sig. Nauðsynlegt er að fá ný sjónarmið inn í umræðuna. Sigurður nefnir ekki einu orði áhrif kristinna rita sem samtvinnuð voru íslensku samfélagi og voru mikilvæg í sköpun og viðhaldi hugmynda um hlutverk kynja. Hin svokallaða mýta um konur sem Sigurður nefnir birtist ljóslifandi á blaðsíðum trúarrita Islendinga sem byggð eru á gömlum grunni. Því eru hugmyndir um hlutverkaskiptingu kynjanna ekki uppfinning betri borgara íslands á 19. öld, þær eiga rætur sínar að rekja til gyðing-kristnar hefða sem mótað hafa samfélög flestra vestrænna ríkja. 36

x

Sagnir

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Sagnir
https://timarit.is/publication/1025

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.