Nýtt Helgafell - 01.04.1959, Page 62
56
HELGAFELL
um það barizt, hvort ein stétt á íslandi
sé betri eða vitrari en önnur, ekki um það,
hvort málefnum Reykvíkinga verði betur
stjómað af t. d. Langnesingum eða Horn-
strendingum (eða jafnvel Seyðfirðingum)
en af þeim sjálfum, svo að eitt dæmi sé
tekið. Nei. Það er verið að berjast um
það, hvort menn eigi jafnan rétt í þessu
landi, hvar sem þeir búa og hvar sem þeir
skipa sér í flokk. íbúar þéttbýlisins ganga
jafnvel svo langt, að þeir heimta ekki rétt
sinn allan, heldur bjóða þeir dreifbýlinu
fleiri þingsæti en því ber að tiltölu.
Úr herbúðum Framsóknarmanna er ver-
ið að hvísla því að Sjálfstæðismönnum, að
það hefði verið auðvelt með samstöðu
þessara flokka að koma á því skipulagi ein-
menningskjördæma, sem hefði þurrkað
Alþýðuflokkinn og kommúnistaflokkinn að
mestu eða öllu leyti út af þingi. En reynsl-
an af hræðslubandalaginu hefir kennt þjóð-
inni, að vandamálin verða ekki leyst með
brellum. Því hefir enginn af forvígismönn-
um réttarbótarinnar viljað fara þá leið að
fórna jafnréttinu til þess að níðast á
andstæðingum sínum. Fylgi kommúnista
í Frakklandi hefir ekki minnkað við það,
að de Gaulle bægir þeim frá þingsetu að
réttri tiltölu. Eg er honum samdóma um
það, að þeir eru skaðræðisgripir, en menn
eiga rétt á því að vera heimskir og að hafa
rangt fyrir sér. Ef slík leið væri reynd hér,
hefðist ekki annað upp úr því en að færa
valdið í þjóðfélagsmálum enn meira úr
höndum Alþingis.
Þótt ég þykist siá eitthvað betur en aðr-
ir, fæ ég ekki ráðið því í lýðræðisþjóðfé-
lagi, nema mér takist að telja aðra á mitt
mál. Eg verð að sætta mig við það, að þeir
sem ég tel hugsa rangt, ráði, ef þeir eru í
meiri hluta. En ég á heimtingu á sama rétti
og aðrir, hvorki meira né minna.
Þótt þingunum 1855 og 1907 auðnaðist
ekki að gera betur en raun varð á, er nú
tækifærið til að kasta á glæ hinni marg-
stagbættu flík kosningalaganna, sem aldrei
var rétt sniðin fyrir þessa þjóð. Enginn
vill úlpuna lengur, nema einn flokkur, sem
með réttu telur sérhagsmunum sínum teflt
í voða, ef jafnréttið sigrar. Þaðan er allra
bragða að vænta. En þau koma um sein-
an.
Fylling tímans er komin. í haust verður
stokkað og gefið upp aftur.