Tímarit Máls og menningar - 01.09.1984, Blaðsíða 60
Tímarit Máls og menningar
minnsta kosti enginn sem kynnti sig sem grunnskólakennara, tók þátt í
aðförinni að skólarannsóknadeild og samfélagsfræðinni á síðastliðnum
vetri.
Mitt mat er að við hljótum að virða sögulegan arf okkar og leitast við að
miðla honum áfram til næstu kynslóðar. En við megum ekki líta á hann eins
og dauðan hlut og óbreytanlegan. Eins og nú standa sakir held ég að við
komumst ekki hjá því að grisja verulega þau efnisatriði sem hefur verið
venja að kenna síðan á kennaraárum Jónasar Jónssonar, kynna færri Sturl-
ungaaldarhöfðingja, færri biskupa og færri þjóðholla embættismenn. Þetta
gerum við bæði til að fá rúm fyrir önnur og „ný“ efnisatriði og til að geta
gert þá eftirminnilegri og áhugaverðari sem standa eftir. Því að umfram allt
verðum við að forðast að miðla arfinum svo að veki andúð og óbeit barna.
Það er kannski eina Islandssögukennslan sem er verulega þjóðhættuleg og
þjóðfjandsamleg.
2. Tilraun til rökstuddrar fastheldni. Eini maðurinn sem reyndi að marki
að rökstyðja fastheldni við hefðina var Guðmundur Magnússon, og sú vörn
hans kom ekki fram fyrr en í Mbl. 28. jan. Hann gerði greinarmun á
atburðasögu, sem hefði verið venja að kenna, og samfélagssögu, sem
ætlunin væri að taka upp í samræmi við námskrá í samfélagsfræði. Síðan
segir Guðmundur:
Meginástæðan fyrir því að ég hef gagnrýnt . . . samfélagssöguna, er sú að
hún rís ekki undir nafni sem þjóðarsaga. Það gerir atburðasagan aftur á móti.
Mér virðist að það liggi í augum uppi að eiginleg saga, eða réttnefnd saga,
hljóti að vera sú sem greinir frá einhverjum sérstökum, óvanalegum viðburð-
um, nýmælum, uppátækjum o.s.frv. Samfélög manna, þjóðhættir þeirra,
trúarbrögð, atvinnuvegir o.þ.h. eru oft svipuð frá einu landi til annars, en
viðburðir í samfélögum eru með ólíkum hætti. Islensk samfélagssaga á liðnum
öldum er t.d. ekki ýkja frábrugðin samfélagssögu annarra Norðurlanda, en
íslensk atburðasaga er gerólík.
Fallast má á það með Guðmundi að höfundar námskrár í samfélagsfræði
hafi ætlað pólitískum atburðum nokkru minna rúm en þeir fá í gömlu
bókunum en samfélagslýsingu að sama skapi meira. (Að vísu er langt frá því
að atburðir séu sniðgengnir í nýju bókunum; þegar hefur verið gefið út efni
um landnám, stofnun allsherjarríkis og sjálfstæðisbaráttuna undir forystu
Jóns Sigurðssonar.) Það er auðvitað rétt líka að atburðir íslandssögunnar
eru einstakir á bláyfirborðinu. Lengra er heldur ekki hægt að fylgja rök-
færslu Guðmundar. Ef við skyggnumst undir yfirborð hinna pólitísku
410