Tímarit Máls og menningar - 01.09.1984, Page 62
Tímarit Máls og menningar
komið okkur upp. . . . Líf okkar hér á Islandi ber að skoða í ljósi baráttu
okkar fyrir þjóðréttindum, bæði í fortíð og nútíð. Sé á því slakað, hvort
heldur er í stjórnmálum, söguritun eða skólastarfi erum við að svíkja sjálf
okkur.
Að þessu loknu dregur Arnór svolítið í land, virðist mér, og segist ekki
ætlast til að ríkisvaldið segi sagnfræðingum fyrir verkum eða gefi út reglur
um rétt vinnubrögð. Hins vegar sé tími til að íhuga hver skuli vera stefnan í
menntunarmálum þjóðarinnar.
Þessi boðskapur hlaut þær undirtektir að þrír alþingismenn, Eiður
Guðnason, Páll Pétursson og Þorvaldur Garðar Kristjánsson tóku máls-
grein úr grein Arnórs og fluttu hana dálítið breytta sem tillögu til þings-
ályktunar (þingskjal 277):
Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að hlutast til um að í grunnskólanámi
verði kennsla í sögu íslensku þjóðarinnar aukin og við það miðuð að
nemendur öðlist ekki aðeins þekkingu og skilning á sögu þjóðarinnar heldur
og trú á landið og vilja til að varðveita það menningarsamfélag sem hér hefur
þróast í aldir.
Um þessa tillögu var margt rætt á alþingi og víðar. Eg get samt ekki leitt
hjá mér að hafa nokkur orð um sjónarmið Arnórs sem liggur að baki henni.
Ég er í aðalatriðum sammála forsendum Arnórs. Engin sögubók er
endanlega hlutlaus og margar bækur hafa verið sviptar lífi í viðleitni til að
hreinsa út úr þeim öll gildi og alla afstöðu. Eg er líka sammála því að
ríkisvaldið eigi að stuðla að því að skapa samstöðu með þjóðinni. En það á
það einkum að gera með því að leitast við að skapa réttlátt og aðlaðandi
þjóðfélag, ekki síst börnum og unglingum. Hitt gæti gefið varhugavert
fordæmi ef ríkisvaldið tæki upp á að krefjast þess af skólunum að þeir
mótuðu ákveðin pólitísk viðhorf, því að þjóðrækni er óneitanlega pólitískt
viðhorf. Förum í svolítinn hugsunarleik með þetta atriði: Alþingi og
ríkisstjórn ákveða þá menntunarstefnu að skólarnir eigi að innræta þjóð-
rækni. Svo kemur nýr meirihluti á alþingi og ný ríkisstjórn mynduð af
verkalýðsflokkum og framsóknarmönnum. Hún endurskoðar menntun-
arstefnuna og ákveður að ekki skuli aðeins stefnt að þjóðrækni heldur líka
trú á samvinnuhreyfingu og verkalýðshreyfingu. Svo gæti komið ný
hægristjórn sem strikaði verkalýðshreyfinguna út og setti frjálst markaðs-
kerfi í staðinn eða forystuhlutverk Bandaríkjanna. Nei, það ætti að vera
regla ríkisvaldsins að vasast ekki í því sem er gert í skólunum.
Jafnvel þótt við vitum að engin bók sé hlutlaus er ástæðulaust að gefa upp
á bátinn þá kröfu til höfunda að þeir leitist við að gera öllum jafnrétt til og
412