Tímarit Máls og menningar - 01.05.1985, Síða 25
Trönurnar fljúga
bókabúðir til að dreifa þeim svo að þær eru sjaldnast í opinberri dreifingu
nema stund og stund, einkum þegar viðkomandi hafa haldið sýningar á
öðrum verkum.
Bókagerðin hefur ekki lagst af þó að málverkið eigi vaxandi vinsældum að
fagna. A hinn bóginn má vera að vinsældir málverksins eigi þátt í því að
meira er nú um teikningar í bókunum og minna um ljósmyndir og texta.
Myndsköpun listamannanna almennt endurspeglast í bókagerð þeirra. Verk
þeirra snúast ekki fyrst og fremst um línur, form og liti, þótt víða megi sjá
beitingu klassískra aðferða í byggingu, og megináherslan er ekki á fáguðu
handbragði eða tækni. Það er heldur ekki rétt, eins og oft hefur verið haldið
fram, að þeir hafi einfaldlega fleygt ljósmyndavélinni og gripið upp blýant
og pensil, heldur á þessi list sameiginlegt með hugmyndlistinni áhersluna á
inntakið, hugsunina, hugmyndina. Ef reynt er að draga þessa list í dilka eftir
því hvort hefðbundnar reglur eru virtar eða ekki, verður sú flokkun jafngild
því að flokka orð eftir því hvort þau eru skrifuð með s eða z þegar að því
kemur að greina framburð eða merkingu. Á hitt ber einnig að líta að íslensk
hugmyndlist hefur ávallt haft mjög rík ljóðræn og persónuleg einkenni, svo
að stökkið fræga úr hugmyndlistinni yfir í málverkið er að líkindum ekki
eins stórt hjá íslenskum myndlistarmönnum og látið hefur verið í veðri
vaka. Þó að munur sé á aðferðum eiga báðar stefnurnar það sameiginlegt að
miðla því sem kalla mætti „innri sýn“ listamannsins, en fjalla ekki um listina
sem slíka eins og harðlínumenn í hugmyndlist höfðu að markmiði.
Bókin á í vök að verjast, segja menn. Hvað sem því líður þá hefur mikil
gróska ríkt í bókagerð íslenskra myndlistarmanna á síðustu árum og sú
gróska er einn votturinn af mörgum um miklar hræringar í íslensku listalífi
undanfarinn áratug eða svo. Bókagerðin sameinar einmitt í sér tvö helstu
einkenni þeirrar starfsemi: hún er leit að nýjum leiðum til listsköpunar,
tilraun með nýjan listmiðil og möguleika hans, og einnig tilraun til þess að
koma á nýrri tegund listmiðlunar, annars konar sambandi milli listamanns
og listnjótanda. I þessu tilviki er viðfangsefni tilraunarinnar næsta hvers-
dagslegur hlutur í heimi nútímans, bókin, sem þróaður er upp í fjölbreyti-
legt og nýstárlegt og umfram allt aðgengilegt listform.
Okt. 1984 - jan. 1985
159