Tímarit Máls og menningar - 01.05.1985, Side 51
Brtíðan
Gamla konan kraup hins vegar á gólfið og svipaðist um og leitaði
milli fóta fólksins með fálmandi hendi, eins og hún stryki ósýnilegt
kusk. Hún hefur því ekki séð vel, því slík handahreyfing er algeng hjá
sjóndöprum gömlum konum. Yngri konurnar krosslögðu fæturna og
kipptu í pilsin. Þegar hún stóð upp var hún enn að leita og „vagninn"
hafði fengið áhuga á málinu. Auðsætt var á hreyfingunni sem komst á
að grunur féll á alla en þó einkum á hjónin með börnin, sætaræningj-
ana.
Svona er fólk, sagði gamla konan. Eg leita ekki vegna peninganna
heldur farmiðans í buddunni.
Lestin hafði lagt af stað og þungar sektir við að ferðast miðalaus.
Nú rauk eiginkonan upp og hristi sig alla og það svo rækilega að ef
hún hefði fundið budduna og stungið henni á sig hlyti hún að
hendast af henni við hristinginn eða hrynja til að mynda úr buxunum
hennar á gólfið. Osköpin urðu til þess að meiri grunur féll á konuna,
manninn og börnin sem fóru líka að hrista sig, en maðurinn sat kyrr;
og litla dóttirin fletti meira að segja upp um sig. Farþegarnir urðu
hálf hneykslaðir og álitu fólkið ekki aðeins vera þjófahyski heldur
líka fram úr hófi ósómakært, því að litla stúlkan sneri sér í hring og
sýndi buxurnar með sakleysissvip á andlitinu. Eiginkonan skynjaði
andúð farþeganna næða um sig og æstist um allan helming og fór að
segja að telpan væri ekki alin upp í því að fletta upp um sig framan í
fólk, þessi telpa hefur aldrei flett upp um sig fyrr en nú, sagði konan
og síðan trylltist hún í garð kerlingarinnar vegna buddutapsins því
það hafði orsakað það að sakleysi barnsins væri túlkað sem flennu-
læti og ósómi á almannafæri. Maðurinn fór að reyna að hemja hana.
Þá kvaðst konan reyndar hafa fundið buddu.
Nú-nú, sögðu nokkrar konur og renndu augunum sitt á hvað afar
undirleitar.
Já, en ekki núna, bætti konan við. Eg fann buddu í lestinni í
fyrradag og skilaði henni.
Gamla konan var nú orðin rauð í framan og yppti öxlum til merkis
um að fólk væri þannig og enginn þyrfti að segja sér neitt um
manneðlið. En eiginkonan heimtaði að lögreglan yrði sótt og hún
sett í málið, svo hún gæti skorið úr um þjófnaðinn og leitað á
fjölskyldunni. Fjölskyldan stóð upp reiðubúin að láta leita á sér hátt
og lágt en lestin komin á hraða ferð og engin leið að sækja lögregluna.
TMM IV
185