Tímarit Máls og menningar - 01.03.1993, Blaðsíða 76
gamla kaupfélagshússins. Var þaðan útsýni yfir höfnina. Nokkuð þykir
Anton undarlegur í háttum og óútreiknanlegur. Skytta er Anton og hékk
jafnan hlaðin haglabyssa á veggnum í stofu hans þar nyrðra. Átti hann
það til í góðu veðri að hrinda upp glugga og puðra á svartbak og annan
ófénað sem vildi fljúga hjá. Gat sumum sjúklinga hans orðið hverft við,
en allt var þetta þó í gamni gert.
Anton er hagorður, enda Dalamaður í báðar ættir, en seinkvæður og
þarf að hafa penna við höndina á meðan hann yrkir. Á Raufarhöfn hafði
Anton gaman af því að láta menn sem komu á stofuna til hans heyra vísur
sínar og þó einkum kvæðamenn sem skildu mikilvægi þess að viðhalda
gömlum íþróttum. En ekki voru allir jafn hrifnir af kveðskap læknisins.
Nokkuð vildi brenna við hjá honum að skakkt væri rímað, og eins gekk
honum stundum illa að finna viðeigandi höfuðstaf á móti stuðlum fyrsta
vísuorðsins. Þótti þetta undarlegt um afkomanda Einars Sigurðssonar í
Eydölum og vildu sumir kenna því um að hann notaði penna við yrking-
arnar, enda segja gamlir vísnamenn að sjaldan fari saman skáldskapur og
skriffæri.
Eitt sinn kemur Kristmundur heitinn Gunnarsson, viktarmaður, á
stofuna til Antons. Kristmundur, eða Krissi Gjé eins og hann var kallaður,
var ágætur hagyrðingur og fór vel með það, þótti málgefinn, en átti til að
þagna á mikilvægum augnablikum og varpa síðan fram vísu. Einkum
vildi þetta bera við ef kastað var til hans fyrriparti eða kviðlingi. Notaði
þá Kristmundur ferskeytluformið til að lýsa lífinu í kringum sig og eins
til þess að tjá ýmsar hugsanir sínar.
Nú þykir Antoni bera vel í veiði, að fá Kristmund til sín á stofuna og
ákveður þegar að egna fyrir karl með stöku. Hann spyr þó fyrir siðasakir
hvað angri viktarmanninn. Kvartaði Kristmundur þá um einhverja óveru
innanum sig og hafði um það mörg orð og langar útskýringar.
Anton skipar honum úr og skoðar hann hátt og lágt, en að skoðun
lokinni sest Anton við borð sitt, grípur sjálfblekung og grúfir sig þegjandi
yfir pappíra. Var hann þá sestur við að setja saman vísu, en vildi leyna
Kristmund því að hann þyrfti pennans með og þóttist skrifa lyfseðil.
Einhverjar mínútur líða, en þegar Anton tekur eftir því að Kristmundur
er farinn að ókyrrast í sæti sínu lætur hann slag standa og kastar fram
þessari vísu:
66
TMM 1993:1