Tímarit Máls og menningar - 01.09.1996, Page 48
þessi örfáu ljóð þarna í upphafi. Þeir sögðu að ég væri arftaki þinn.
Arftaki. Hann hnussaði. Af hverju skrifaði ég aldrei neitt almennilegt
eftir það? Segðu mér það, Steinn. Þú manst að ég kom hingað eftir
fyrstu bókina. Eftir ræðurnar. Veisluhöldin. Kannski sagði ég eitthvað
þá sem ég átti ekki að segja. Ég var hátt uppi. Hafði fengið viðurkenn-
ingu. Verið hampað. Það var sláttur á mér þá nótt. En samt kom ég
hingað til þess að votta þér virðingu mína og aðdáun. Þú manst það,
Steinn. Ef til vill hefði ég ekki átt að segja það sem ég sagði. Að ég ætlaði
að verða mesta skáld íslands. Meira en þú. Betra en þú. Ég hef oft reynt
að þurrka þessi orð út. Láta sem þau hefðu aldrei verið sögð. En þau
voru eins og brennimerkt í minni mitt.
Hann stundi, teygði sig í fleyginn í grasinu og saup á.
— Já, hvað gerðist svo, Steinn? Það er góð spurning. Ég gaf út bækur.
Það vantaði ekki. Eina eftir aðra. En þetta var allt innantómt blaður
eins og þú veist. Ég sá þig oft fyrir mér, hlæjandi hæðnislega að þessu
pródútti. Þú einn vissir það. Þú og ég. Ég átti mér mína áhangendur
sem héldu að ég væri þeirra maður. Myndi tala þeirra máli. Styðja
hugsjónir þeirra. Hugsjónir. Þetta voru þá hugsjónir. Allt farið til
helvítis.
Hann hélt enn þá á pelanum í hendinni, bar hann upp í birtuna.
Kinkaði kolli. Skrúfaði tappann á og stakk honum í vasann. Ekki meir,
ekki meir. Hann þurfti að geyma sér afganginn til sérstakra nota.
— Það verður að segjast eins og er, Steinn, að eftir þessa ferð til þín
fyrir tuttugu árum var ég aldrei hamingjusamur maður. Aldrei. Hvað
var það, Steinn? Mig langar til að vita það áður en ég dey. Af hverju?
segirðu. Af hverju hvað? Af hverju vil ég deyja núna? Er ekki nógur
tíminn? Og vatnið. Ha, ha, þessi var góður, Steinn. Hvað segirðu?
Lágkúruleg sjálfsvorkunn. Margir verr staddir en ég. Það er ekki það,
Steinn. Það er þetta holundarsár við hjarta mitt sem blæðir og blæðir.
Það ættir þú að skilja manna best. Og ég er þegar orðinn eldri en þú
varðst. Hvað segirðu? Hefðir þú vel getað hugsað þér að lifa lengur. Já,
en Steinn, þú vissir þó alltaf að þú varst skáld. Það hef ég aldrei vitað,
heldur kvalist dag hvern í tuttugu ár. Ég get það ekki lengur, Steinn.
Ég bið þig. Þú verður að skilja mig. Hvað með fjölskylduna, ástvini
mína? Já, þarna komstu með það. Ástvini. Ætla ég að leggja þetta á
fólkið sem elskar mig? Elska. Þetta skelfilega orð. Sjálfsagt elskar þetta
fólk mig. Hefur að minnsta kosti sýnt það í verki. Bróðir minn. Alltaf
46
TMM 1996:3