Tímarit Máls og menningar - 01.09.1996, Page 74
blásturinn, hún var kvenmaður eins og aðrir kvenmenn. Hún
hafði víst verið dygðug af því að hana vantaði freistingarnar (bls.
268-69).
Þetta er önnur hlið kynlífs en birtist okkur í dýrslegum samförum hjóna-
leysanna í upphafi. Hvergi sést írónía Hamsuns betur en í köflum einsog
þessum. Menn hafa deilt um hvort þetta sé mannfyrirlitning eða væntum-
þykja, skilningur á breyskleika mannanna. Þeir sem aðhylltust hið fyrr-
nefnda sáu í stuðningi Hamsuns við nasista síðar aðeins rökrétt framhald af
því sem finna mátti í bókum hans. Hinir hafa þóst finna í Gróðri jarðar
eitthvert ólympskt æðruleysi, sem bak við kaldhæðnina býr yfir djúpum
mannsskilningi. Lífssýn sem birtist í þessari ógleymanlegu mynd úr öðrum
stað: „En allir eiga ljúfar stundir. Fangi situr í vagni, á leið á höggstokkinn,
nagli stingur hann í endann, hann færir sig og líður miklu betur.“12 Það er
óverjanleg einföldun að kenna þessa lífssýn við nasisma; þetta er öllu heldur
hugmyndin um hina algeru einsemd mannsins sem finna má í verkum
Hamsuns frá upphafi.
Hinu verður ekki á móti mælt að boðskapur er skýrari í Gróðri jarðar en
fyrri bókum höfúndar. Hér er andróður gegn þéttbýlismyndun og nútíma
siðmenningu, lofsöngur um lífið til sveita. Og kannski var ekki nema von að
sá þáttur verksins sem lofaði friðsamlegt líf í faðmi náttúrunnar hafi fundið
hljómgrunn í Evrópu mitt í skepnuskap fyrri heimsstyrjaldar. En hjá því
verður ekki litið að þessi boðskapur er afturhvarfsútópía, eða með orðum
Leo Löwenthals:
í augum fólks sem skynjar tiltekna samfélagskipan sem byrði, er
brugðið töfrabirtu yfir tilvistarform sem — ef það næði til allra —
hefði í för með sér meiri félagslega og menningarlega örbirgð en
hægt er að gera sér í hugarlund.13
Og enda þótt frásagnarhátturinn grafi undan hugmyndafræðinni, og vafi
leiki stundum á afstöðu höfundar, þá eru líka til þeir staðir í bókinni þar sem
sögumaður hefur upp raust sína einsog spámaður úr Gamla testamentinu,
og enginn þarf að velkjast í vafa um boðskapinn. Frægust eru þessi ummæli
um ísak undir lok sögunnar, sem Halldór Laxness notaði reyndar sem
einkunnarorð smásögunnar Den tusindaarige Islænding, og var samin í
Kaupmannahöfn 1919:
Hann er heiðarbúi í húð og hár og jarðyrkjumaður, án allrar
miskunnar. Hann er upprisinn úr fortíðinni og markar stefhuna
inn í framtíðina, maður ffá hinni fyrstu jarðyrkju, landnámsmað-
urinn, níuhundruð ára gamall, og enn á ný maður dagsins í dag
(bls. 386).
72
TMM 1996:3